Kettir og ofnæmi?

Spurning:
Við erum að velta fyrir okkur að fá okkur kött en þar sem við eigum litla dóttur erum við nokkuð óörugg hvað loðdýraofnæmi varðar. Áður höfum við átt kanínu en einhversstaðar heyrðum við að af öllum dýrum væri kettir mest ofnæmisvaldandi. Það sem við vildum því gjarnan vita er hvernig lýsir svona ofnæmi sér, getur maður fengið ofnæmi án þess að hafa haft nein einkenni áður, þarf maður að hafa fleiri en eitt einkenni til að um ofnæmi geti verið að ræða og er það rétt að kettir séu mest ofnæmisvaldandi? Við fórum til læknis og spurðum en hann sagði að ef dóttir okkar hefði aldrei sýnt nein ofnæmiseinkenni þyrfti ekki að prófa hana og þegar við litum hérna á Doktor.is sáum við að það var nánast ekkert um ofnæmi að finna.

Svar:

Komdu sællVið verðum eitthvað að reyna að bæta úr upplýsingaleysi varðandi ofnæmi.Það er mikið rétt að kettir eru mest ofnæmisvaldandi eða það eru flestir með ofnæmi fyrir köttum af þeim sem hafa ofnæmi fyrir einhverjum dýrum, en nagdýraofnæmi er einnig vel þekkt.  Sé engin saga um ofnæmi hjá ykkur og hafi dóttir ykkar ekki neitt ofnæmi nú þegar er engin ástæða til að óttast það sérstaklega. Kattarofnæmi er þó mjög oft samhliða t.d. frjókornaofnæmi og lýsir sér með svipuðum hætti. Bólga og kláði í augum, nefrennsli og pirringur í nefi, stundum kemur ofnæmi einnig fram sem astmi eða erfiði við öndun og svo er til í dæminu að fá útbrot eða þrota t.d. á hendur eftir að hafa snert kött. Já það er hægt að fá ofnæmi án þess að hafa sýnt nein einkenni áður og yfirleitt kemur svona ofnæmi ekki fram hjá börnum fyrr en eftir 5 ára.Með góðri kveðju,Hjúkrunarfræðingurwww.Doktor.is