Leikskólabarn kvartar um kláða i bossanum.er sífellt að klóra sér .Hefur nýverið lokið njálg meðferð ásamt sinni fjôlskyldu farið þar eftir öllum leiðbeiningum.Einnig tjáir sig starfsfólk leikskólans. hvað hun klórar sér mikið.
Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina
Erfitt er að meta slík tilfelli sem þessi án frekari upplýsinga eða skoðunar.
Eru önnur einkenni til staðar, svo viðkvæm húð/kláði annars staðar á líkamanum, ofnæmi eða einkenni frá meltingarvegi s.s. hægðatregða? Er eitthvað sem ýtir undir eða linar kláða barnsins? Hvernig er ástand húðar við endaþarmsop?
Ef barninu klæjar mest á nóttunni getur það verið merki um endurkomu njálgs. Slíkt getur gerst ef ekki hefur náðst að uppræta sýkingu á leikskólanum, t.d. vegna þess að meðferð hafi verið ófullkomin á öðru heimili, einkennalaus sýktur einstaklingur ber smit inn á deildina/stofnuna eða upptök nýrrar sýkingar frá öðrum vettvangi t.d. vini eða ættingja barns. Einnig er i sumum tilfellum þörf á endurtekinni lyfjameðferð gegn njálg eða meðferð með öðru lyfi. Hægt er að nálgast allar helstu upplýsingar um njálg hér Njálgur – doktor.is (frettabladid.is) Oft eykst kláði ef húð er ert og því getur skapast viss vítahringur með barn sem á erfitt með að hemja sig í klóri. Þá er mikilvægt að hjálpa húðinni að ná sér á strik með því að skoða hvort breytingar á hreinlætisvenjum eða smyrsli geti hjálpað og linað kláða. Góð ráð um hreinsun endaþarms og krem má finna hér Hreinsun endaþarms – doktor.is (frettabladid.is) Barnið ætti að klæðast bómullarnærfatnaði og velja ætti föt/náttföt sem eru mátulega hlý og þrengja ekki að. Mikilvægt er að gæta þess að neglur séu vel snyrtar og ef barnið klórar sér að nóttu er gott að það sofi með bómullarhanska til að særa ekki húð með klóri, slíkt getur einnig komið í veg fyrir að möguleg njálgsegg festist undir nöglum en að sjálfsögðu er mikilvægt að þvo hanskana helst í suðuþvotti eftir notkun.
Gott ráð getur verið að halda matardagbók samhliða einkennaskráningu ef grunur er um ofnæmi eða að vandamálið geti tengst meltingarfærum.
Ef ráð sem þessi leysa ekki vandann er mikilvægt að leita til læknis þar sem hægt er að skoða orsök og heppilega meðferð.
Gangi ykkur vel
Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur