Kláði í augum, hvað er til ráða?

Spurning:

Sæll.

Ég er 27 ára og hef verið með mikinn kláða í augunum upp á síðkastið. Hvítan í auganu hefur verið mikið rauðsprengd og þornar gjarnan. Það hefur verið þó nokkuð um að slím safnist fyrir og stundum þegar ég blikka auganu, sé ég allt í móðu og þarf að blikka nokkrum sinnum og þá er það bara slím sem hefur dreifst yfir allt augað. Svo fyrir viku síðan þá fékk ég einhver útbrot á annað augnlokið. Því fylgdi aukinn kláði í það auga. Ég var ekki að prófa neinar nýjar snyrtivörur heldur notaði ég það sem ég hef notað lengi og þoli vel. Svo var ég að skoða hvítuna betur í spegli og tók eftir því að neðarlega á hvítunni, þ.e. svæðið sem er yfirleitt ekki sýnilegt nema ég ýti neðri kvarminum niður og horfi upp, að þá fannst mér vera eitthvað orðið gult.

Er þetta eitthvað sem ég þarf að láta athuga betur eða get ég fengið einhverja dropa afgreidda í apóteki án lyfseðils.

Með kveðju.

Svar:

Sæl og blessuð.

Kláði er mjög grunsamlegur fyrir ofnæmi af einhverjum toga en getur einstöku sinnum stafað af einhverju öðru, svo sem hvarmabólgu eða slímhimnubólgu vegna veirusýkingar. Augnþurrkur getur stundum stuðlað að kláða. Endilega láttu augnlækni kíkja á þetta hjá þér til að komast að hinu sanna. Ég myndi ekki kaupa neina dropa í apóteki án þess. Úti í Ameríku eru svokallaðir „Visine“ dropar og skyldar vörur vinsælar og fást án lyfseðils. Þessir dropar draga nokkuð úr kláða og minnka roða í augum – stundum kallaðir „flugfreyjudropar“ Ég mæli alls ekki með þessum dropum, því ef þeir eru notaðir til langs tíma geta þeir sjálfir valdið roða í augum sem fólk losnar ekki við.

Bestu kveðjur og gangi þér vel,
Jóhannes Kári Kristinsson, augnlæknir Sjónlag hf