Kláði og erting í húð

Spurning:

Sæl(l).

Getur þú sagt mér hvað er að eiga sér stað hjá mér miðað við eftirfarandi lýsingu:

Síðdegis síðastliðinn föstudag er ég var á leiðinni í sund fann ég fyrir kláða á hálsi og skömmu síðar varð húðin rauð og hljóp öll upp í þykkildi. Eftir sundið og gufubað klæjaði mig dálítið en seinna um kvöldið jafnaði hálsinn sig og húðin varð eðlileg. Þegar kom að því að fara að sofa fékk ég kláða í fingurna og lófana, alveg óþolandi kláða, einnig fann ég fyrir kláða undir iljunum en ekki eins slæman. Fingurnir og lófarnir urðu rauðir og þrútnir, þ.e. virtust bólgna en húðin hljóp ekki upp í þykkildi ein og fyrr um daginn. Ég bar kælikrem á þetta og sló það á mestu óþæindin. Samfara þessum kláða komu rauðir þykkildisblettir hér og þar um líkamann sem einnig orsökuðu kláða. Morguninn eftir voru öll óþægindi horfin og blettirnir einnig,en þó mátti sjá litla rauða díla (eins og bólur) hér og þar í húðinni. Þannig leið laugardagurinn án óþæginda.
Sunnudeginum svipaði mjög til föstudagsins eins og áður er lýst. Mánudagurinn leið án mikilla óþæginda. Ég fékk einu sinni kláða í iljarnar, í fingur og lófa, og nokkra rauða þykkildisbletti. Nú þegar þetta er skrifað liggur allt niðri nema hvað litlir rauðir dílar (bólur) eru hér og þar og orsaka dálítinn kláða.

Vinsamlegast gefið mér svar um hvað hér gæti verið á ferðinni.

Virðingarfyllst

Svar:

Sæll og takk fyrir greinargóða lýsingu. Því miður er nánast útilokað að greina sjúkdóma á húð án þess að sjá þá með eigin augum. Því tel ég mjög mikilvægt að þú hafir strax samband við lækni og fáir hann til að skoða þig. Það sem mér dettur helst í hug út frá lýsingu þinni, að um ofnæmi sé að ræða og því þarft þú að velta því fyrir þér hvort það er eitthvað nýtt í þínu daglega lífi. Hvort þú sért nýlega byrjaður að taka lyf, vítamín eða önnur fæðubótarefni sem þú hefur ekki tekið áður, hafir borðað mat sem þú hefur ekki borðað áður, notað nýtt þvottaefni, nýja sturtusápu eða krem o.s.frv. Ef um slíkt er að ræða er ráðlagt hætta notkun strax og sjá hvort ástandið lagist, en ég legg aftur áherslu á að leita læknis og fá úr því skorið hvað í raun og veru er á ferðinni. Leitt að geta ekki aðstoðað þig meira, gangi þér vel.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.