Kláði og sviði á kynfærum

Spurning:
Ég er búin að vera í föstu sambandi í nokkur ár og er ófrísk. Undanfarnar vikur höfum við bæði fundið fyrir kláða og sviða í kynfærum og litlum bólum eða þrota, sem eykst við samfarir, getur þetta verið sveppasýking? Er algengt að báðir aðilar fái einkenni sveppasýkingar? Getur sýking blossað upp skyndilega, þ.e.a.s. eftir nokkurra ára samband?
Kv. ein svaraþurfi

Svar:

Á meðgöngu eru margar konur viðkvæmar fyrir sveppasýkingum. Sveppurinn Candida albicans er hluti eðlilegrar leggangaflóru en á meðgöngu breytist sýrustig legganganna þannig að hann getur náð að fjölga sér óhóflega og þá koma fram einkenni eins og roði og þroti og oft sjást hvítar skellur á slímhúðinni umhverfis leggangaopið. Þessu fylgir einnig töluverður kláði. Það er sjaldgæfara að karlmenn fái þessi einkenni en það er þó alveg eðlilegt ef slík sýking er til staðar.

Af lýsingunni að dæma er hér um sveppasýkingu að ræða en annað sem veldur svipuðum einkennum er kynfæraáblástur (Herpes). Þar sem hið síðarnefnda er grafalvarlegt mál ef smit er opið við fæðingu ættir þú strax að fá læknisskoðun. Sé um sveppasýkingu að ræða er hægt að kaupa sveppadrepandi krem og leggangastíla án lyfseðils í apótekinu. Þú notar stílana og kremið á þig en einungis kremið á manninn þinn. Yfirleitt þarf að nota kremið í viku til 10 daga áður en bati fæst. Sé um kynfæraáblástur að ræða er hægt að nota frunsumeðal til að draga úr einkennum en hann læknast ekki heldur leggst í dvala og getur blossað upp aftur þegar minnst varir.

Láttu lækni endilega líta á þig til að greina hvers eðlis óþægindin eru og gera viðeigandi ráðstafanir.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir