Kólesteról og merkingar matvöru?

Spurning:
Heil og sæl. Fyrst vil ég þakka fyrir góðan og upplýsandi vef. Ég er einn af þeim sem hef verið með of háa blóðfitu undanfarin ár og hef hugsað mér að taka á því vandamáli núna. Þá þarf maður að fara að lesa innihaldslýsingu á vörum ef þær eru fyrir hendi og treysta á að þær séu réttar. Ég hef rekið mig á þó nokkuð margar vörur sem sagðar eru með 0 í kolesteróli en samt sem áður með eitthvað af grömmum af mettaðri fitu og mjög hátt hlutfall af ómettaðri fitu. Mér sýnist þetta eiga sérstaklega við ýmsar jurtaolíur og viðbit. Er hægt að treysta því að þetta sé rétt? Mig langar einnig að spyrja hvort mettuð fita sem kemur úr jurtaríkinu hafi áhrif til hækkunar á kolesteróli í blóði eða er það einungis mettuð fita úr dýraríkinu sem hefur þessi áhrif?.
Með vinsemd, G

Svar:
Sæll, Mettuð fita úr jurtaríkinu hefur sömu áhrif á kólesteról í blóði og mettuð fita úr dýraríkinu hefur. Varðandi vörur sem innihalda 0 mg af kólesteróli en töluvert af mettaðri fitu, þá er það mettaða fitan sem hefur meiri áhrif á kólesteról í blóði en kólesteról í sjálfri vörunni. Vara með engu kólesteróli getur því hækkað kólesteról í blóði. Hert jurtafita, kókósfeiti og pálmafeiti, pálmaolía eru dæmi um slíkar vörur. Þær hækka kólesterólið í blóðinu vegna mettuðu fitunnar sem þær hafa að geyma þótt þær innihaldi sjálfar ekkert kólesteról. Flestar jurtaolíur eru hins vegar ákjósanlegar, svo framarlega sem þær eru fljótandi úr ísskáp, því þótt þar sé einhver mettuð fita er hún í lágmarki sem hlutfall af þeirri ómettuðu. Kveðja, Laufey

 

Laufey Steingrímsdóttir, hjá Lýðheilsustöð