Kvíði, þunglyndi og alkóhólismi – úrræði?

Spurning:
Ég er búin að þjást af kvíða og þunglyndi í nokkur ár, auk þess að hafa verið virkur alkóholisti.
Eru einhver önnur úrræði en Landspítalinn, Vogur, Teigar?
Get ég snúið mér eitthvað annað?
Ég hef þegar farið í meðferðir en þær hafa ekki virkað!
Getur verið að ég þurfi fleira en meðferð gegn alkóhólisma?
Með fyrirfram þökk.
Svar:
Ef að þú hefur hingað til aðeins farið í áfengismeðferð en ekki í sérstaka meðferð við þunglyndi og kvíða gæti verið heppilegt fyrir þig að fara í meðferð hjá sálfræðingi, geðlækni eða öðrum fagaðila vegna þessara vandamála. Þú getur auðvitað pantað tíma á stofum hjá slíkum fagaðilum en vertu viðbúinn því að þurfa að bíða í vikur eða jafnvel nokkra mánuði eftir því að fá fyrsta viðtal.  Innlögn á geðsvið Reykjalundar er mjög gagnlegt úrræði vegna þunglyndis og kvíða en þar er einnig mjög langur biðtími.  Þar er svokölluð hugræn atferlismeðferð mikið notuð auk alhliða líkamlegrar endurhæfingar.  Til þess að komast á Reykjalund þarf tilvísun frá lækni.  Hérna hjá Geðhjálp eru starfandi sjálfshjálparhópar bæði vegna þunglyndis og kvíða.  Upplýsingar um hópana eru á netinu: www.gedhjalp.is en einnig getur þú hringt í síma 570 1700 til að afla þér frekari upplýsinga.

 

Gangi þér vel.

 

Kveðja, Guðbjörg Daníelsdóttir, sálfræðingur hjá Geðhjálp.