Fyrirspurn:
Kæru doktorar,
ég er í stökustu vandræðum. Þannig er málið að ég er í sambandi með stelpu, við höfum verið saman í svona 2 ár. Og hún lenti í því að að það var gerð á hana mænustunga í febrúar á þessu ári þegar hún kom inn á bráðadeild með mígreni og þá var sködduð taug í hægri löppinni á henni. Núna, og síðan, hefur hún verið á fjöldanum öllum af lyfjum út af sársaukanum, og eitt hafa þessi lyf öll sameiginlegt er að deyfa kynhvöt. Og við höfum verið að rekast á hvort annað með það að mín kynhvöt er ennþá eðlileg (sem er frekar mikil) en hennar næstum engin. Og ég er að velta því fyrir mér hvort það sé eitthvað sem ég gæti gert til að deyfa í mér mína eigin kynhvöt, er orðinn rosalega þreyttur að þetta sé alltaf að vera eitthvað vandamál, og myndi bara vilja getað starfað án þess að þetta væri alltaf að koma upp. Endilega allar hugmyndir velkomnar, er kominn með alvarlega leið á þessu. Kv. Einn ekki svo glaður að vera graður.
Svar:
Sæll og þakka þér fyrir spurninguna.
Kynhvöt okkar allra á það til að sveiflast upp og niður og út og suður allt eftir því hvað er að gerast í lífi okkar. Sjúkdómar, áföll, streita og verkir eru allt þættir sem geta haft mikil áhrif á kynlöngun. Í samböndum er þar að auki frekar líklegt að rólegheitatímabil í kynhvöt falli ekki alltaf á sama tíma hjá báðum aðilum – eins og hjá ykkur núna þegar þú ert í svaka stuði en kærastan með verki og vesen og skiljanlega upptekin af öðru en kynórum. Ég held að það sé ekkert sérstaklega góð hugmynd að þú leitir leiða til að bæla niður þína eðlilegu kynhvöt, hins vegar eru til leiðir til að fá útrás fyrir hana án þess að þú setjir óþægilega eða óvelkomna pressu á kærustuna. Það er nefnilega hægt að stunda ljómandi skemmtilegt og gefandi kynlíf með sjálfum sér, gamla góða sjálfsfróunin stendur alltaf fyrir sínu og er fyrirtaks útrás fyrir kynhvötina. Þú getur að sjálfsögðu boðið kærustunni uppá svoldið kelerí, nudd og knús – kannski getur það meira að segja veitt henni vellíðan og slökun sem gagnast í baráttunni við verkina. Ekki pressa á hana að láta keleríið enda í samförum, munngælum eða öðru sem kannski er líkamlega erfitt. Ef þú æsist upp úr öllu valdi er svo bara að klára dæmið með sjálfsfróun.
Þetta er mín tillaga… vonandi hjálpar hún eða kveikir hugmyndir að fleiri lausnum.
Með kærri kveðju,
Ragnheiður Eiríksdóttir
hjúkrunarfræðingur