Ja hvar / hvernig skal byrja. Mig langar að stunda kynlíf en það kviknar bara engin löngun til að vilja framkvæma það. Hef í gegnum árin lagt fram fyrirspurn hjá heimilislæknum og kvensjúkdómalækni. Virðist vera mikið tabú hjá öllum. Getur verið að hormónar valdi þessu? get ég óskað eftir einhverri mælingu? Er orðin sextug og gift sama gullmolanum í rúmlega 40 ár. Ein úrkula vonar.
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Opin og heiðarleg umræða um heilbrigt kynlíf er með öllu nauðsynleg svo auðveldara verður fyrir okkur að aðlagast hverju og einu lífsskeiði fyrir sig þegar kemur að kynheilbrigði, með öllum þeim kostum og löstum sem þau hafa. Yngra fólkið okkar þarf að vita að aukin kynlöngun er eðlileg og sjálfsögð og þegar aldurinn færist yfir þá breytist hún og getur dofnað.
Svo það er algjörlega eðlilegt að finna fyrir þessum sveiflum í gegnum lífið og það er rétt getið hjá þér, hormónarnir stýra þessu að mestu leiti.
Það hormón sem stjórnar hvað mest kynlöngun hjá okkur er testósterón, það er framleitt í eistum hjá körlum og eggjastokkum hjá konum og hægt að mæla magn þess með einfaldri blóðprufu. Við breytingaskeið hjá konum minnkar hormónaframleiðsla eggjastokkana og testósterónmagn líkamans lækkar. Einnig fer þurrkur og eymsli í leggöngum að gera vart við sig sem hefur mikil áhrif á kynlöngun.
Vissulega eru fleiri þættir sem hafa áhrif eins og breyting á blóðþrýstingi, sjúkdómar, veikindi eða aukverkanir frá nauðsynlegum lyfjum.
Ég hvet þig eindregið til að halda áfram leitinni að neistanum og best er að hafa makann með í leitinni því skilningur og stuðningur maka er mjög mikilvægt í þessu. Eins getur líka verið skemmtilegt fyrir ykkur að kveikja neistann saman t.d með því að prófa ykkur áfram með allt það framboð sem kynlífshjálpartækjaverslanir bjóða uppá, bæði í formi tækja, spila og sleipiefna.
Sem betur fer er „tabú´ið“ á undanhaldi hvað varðar kynlífsráðgjöf og hjálpartæki svo ef þú slærð inn í leitarvél á netinu „kynlífsráðgjöf“ þá koma upp síður þar sem sérfræðingar bjóða bæði uppá para- og einstaklingsráðgjöf.
Gangi þér sem allra best
með kveðju,
Lára Kristín Jónsdóttir
Hjúkrunarfræðingur.