Lágur blóðþrýstingur og hár púls?

Spurning:
Ég er komin 30 vikur á leið og blóðþrýstingurinn hjá mér er 99/67 og púlsinn 96. Er þetta eðlilegt og ef ekki áttu þá einhver góð ráð.
Kveðja O.

Svar:
Þetta myndi teljast fremur lágur blóðþrýstingur og ör púls. Þessi öri púls gæti endurspeglað að hjartað sé að reyna að halda uppi aðeins hærri blóðþrýstingi en einnig gæti hann verið vegna lágs hemoglobins í blóðinu (blóðleysi). Fyrsta skrefið væri því að athuga hjá þér blóðið – hvernig blóðhag þínum er háttað – og meðhöndla, ef þarf, blóðskort hjá þér með járni. Sé þetta einungis vegna of lágs blóðþrýstings er best ráðið að drekka vel af vatni og öðrum hreinum vökvum og hreyfa sig reglulega. En annars er ekkert skaðlegt að vera með aðeins of lágan blóðþrýsting þótt það geti á köflum valdið sleni og svima þegar staðið er upp. Þá er bara að fara hægt af stað.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir