Langt flug á meðgöngu?

Spurning:
Komdu sæl, Ég er að velta því fyrir mér hvort að það sé hættulegt að fara í frekar langt flug þegar maður er komin með ca.13 vikur á leið. Er aukin hætta á fósturmissi eða ???

Með kveðju bumbulína

Svar:
Mesta hættan sem fylgir löngu flugi er fyrir þig sjálfa. Fóstrið er vel varið í sínum belg og ekkert ætti að ama að því í þrýstingsjafnaðri flugvél. Mesta hættan við langt flug er að fólk fái blóðtappa vegna langrar setu. Þess vegna er nú mælt með því að fólk í blóðtappaáhættu, eins og barnshafandi konur, taki 1/2 barnamagnyl (ein barnamagnyl er 125 mg) daginn áður og sama dag og flogið er til þynna aðeins blóðið og svo er náttúrulega mikilvægt að standa upp og hreyfa ökla og kálfa með reglulegu millibili sem og drekka vel. Gættu þess einnig að vera í fatnaði sem ekki þrengir að nárum og lærum.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir