Leysiefni á meðgöngu?

Spurning:

Nú hef ég verið að gera að skáp, pússa, bæsa og lakka. Ég veit það er ekki hollt að anda að sér slíkum efnum, en er það enn verra þegar gengið er með barn?  Hugsaði því miður ekki út í þetta fram í tímann og hef því smá áhyggjur núna.
Kveðja.

Svar:

Sæl.

Það er ekki æskilegt að nota lífræn leysiefni á meðgöngu þar sem þau eru skaðleg fóstrinu. Skaðinn er í réttu hlutfalli við magnið sem kemur í líkama móðurinnar þannig að ef þú varst í vel loftræstu herbergi þegar þú notaðir þessi efni er frekar lítil hætta á að fóstrið hafi beðið skaða. Það fer einnig eftir meðgöngulengdinni hversu skaðlegt þetta er.

Talaðu um þetta við lækni í mæðraverndinni og svo áttu kost á ómskoðun við 19. viku þar sem öll helstu líffærakerfi fóstursins eru skoðuð.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir