lidskipti mjödm

Hvad á ég ad gera fyrir lidskipti (mjödm )

Komdu sæl(l) og takk fyrir fyrirspurnina.

Liðskiptaaðgerðir eru fyrst og fremst gerðar til þess að hindra verki. Í sumum tilvikum bæta þær hreyfigetu og rétta ganglimi. Slík aðgerð er þó ekki gerð fyrr en liðbrjóskið er búið og liðurinn ónýtur. Verkir þurfa að vera það miklir að þeir hindri manneskjuna í daglegu lífi og starf

Ef bæklunarlæknir hefur metið þig þannig að þú þurfir á liðskiptaaðgerð að halda er ferlið í aðalatriðum eftirfarandi:

  • Innlögn á sjúkrahús: Þeir sem fara í mjaðmaaðgerð gangast fyrst undir rannsóknir og fara í viðtöl við skurðlækni, svæfingarlækni og hjúkrunarfræðinga. Þeir fara á fætur daginn eftir aðgerð og útskrifast heim nokkrum dögum síðar.  Við heimferð ganga þeir við tvær hækjur. Þeir þurfa hjálpartæki við að komast í sokka og skó, eiga að sitja á háum stól og fá salernishækkun fyrstu tvo mánuðina. Í flestum tilvikum lengist ganglimur örlítið eða um 0.5-1 cm. Aka má bíl eftir tvo mánuði og fara í sund á eigin vegum eftir sama tíma.
  • Helsta áhætta eftir aðgerð eru liðhlaup og sýkingar. Sýkingarhætta er um 1%. Liðhlaupshætta er 1-3%.
  • Ending er háð aldri, þyngd og álagi. Um 95% gerviliða sitja enn eftir 10 ár, 60% eftir 15 ár. Sjúklingar mega ganga, synda, spila golf og lifa eðlilegu lífi. Þeim er þó ráðlagt  að forðast  að hlaupa og stökkva.

Besta kveðja

Sigríður Ólafsdóttir hjúkrunarfræðingur