Líkami fyrir lífið – gagnrýni næringarfræðings

Spurning:

Sæll.

Ég hef verið að lesa bókina Líkaminn fyrir lífið. Það er margt þar sem kemur mér á óvart en þess má geta að ég hef tekið næringarfræði í framhaldsskóla. Ég hef verið að leita eftir gagnrýni á bókina en ekki fundið. Hvað finnst þér um þessa bók?

Svar:

Sæl.

Líkami fyrir lífið er á margan hátt kostulegt bókverk þar sem er að finna ágætis og sígildar ráðleggingar í bland við fullyrðingar sem engan veginn standast og næringarfræðin hefur afsannað margsinnis. Það sem þó er kostulegast er að helsta markmið bókarinar er að ýta undir sölu á næringardufti sem þekkist undir nafninu Myoplex. Auðvitað þarf það ekki að koma neinum á óvart að höfundur bókarinnar, herra Bill Phillips er eigandi fyrirtækisins sem staðið hefur í þróun á téðu fæðubótarefni. En fyrirtækið nefnist: Experimental and Applied Science (EAS). Þannig má öllum vera ljóst að höfundur bókarinnar er ekki hlutlaus í sínum ráðleggingum.

Í sambandi við leiðbeiningar sem gefnar eru vegna þjálfunar hef ég heyrt frá íþróttafræðingum að þar sé víða pottur brotinn en í þeirri úttekt sem hér fylgir verður ekki farið nánar út í þá sálma. Aftur á móti vil ég gera grein fyrir nokkrum næringarþáttum, af mörgum, sem þarfnast leiðréttingar við.

Próteinfárið eilífa!

Eins og svo oft gerist með höfunda skyndimegrunarbókmennta þá fullyrðir Bill Phillips að næringarfræðingar (sjá bls. 45) séu á villugötum þegar þeir ráðleggja fólki sem er í megrun. Og að feillinn sé fyrst og fremst tengdur því að þeir ráðleggi of mikla kolvetnaneyslu og of litla próteinneyslu. En þess má geta að samkvæmt næringarfræðinni er talið heppilegt að orkuleg samsetning, í megrun, sé eftirfarandi: Kolvetni (50-65% af heildarorku), fita (15-30% af heildarorku) og prótein (15-25% af heildarorku, eða 0,8 g fyrir hvert líkamskíló). Boðskapur Líkama fyrir lífið er (að því er ég best fæ séð): Kolvetni (40%); fita (20%); prótein (40%).

Í reynd er margsannað að óæskilegt er að hafa hlutfall próteina eins gríðarhátt og mælt er með í bókinni Líkama fyrir lífið. Sem dæmi má nefna að óhófleg próteinneysla ýtir undir vökvatap og óeðlilegt vinnuálag á nýru og lifur.

Vert er að hafa í huga að prótein er ekki góður orkugjafi fyrir líkamann. En besti orkugjafinn er auðvitað kolvetni þar sem flestar frumur líkamans, svo sem heilafrumur og taugafrumur, nærast á kolvetnategundinni glúkósa. Næst besti orkugjafinn er fita. Prótein er aftur á móti mjög mikilvægt til viðhalds og uppbyggingar á grönnum líkamsvefjum eins og vöðvum og að útvega líkamanum efni eins og hormón. Ráðlagður dagskammtur af próteinum á dag fyrir meðal manninn er 0,8 g fyrir hvert líkamskíló. Hafa ber í huga að í hugtakinu “ráðlagður dagskammtur” felst að næringarþörf alls þorra heilbrigðs fólks sé fullnægt. Í reynd er ráðlagður dagskammtur töluvert hærri en meðaldagsþörf manna segir til um. Hvað prótein varðar þá hefur komið í ljós að meðalþörf manna er um 0,5 g fyrir hvert líkamskíló sem augljóslega er umtalsvert lægri tala en ráðlagður dagskammtur, það er 0,8 g.

Til að gefa fólki hugmynd um ráðlagða þörf manna á próteinum er vert að velta fyrir sér eftirfarandi dæmi. Nonni er 80 kíló. Hann er í megrun. Ráðlagður dagskammtur af próteinum, fyrir Nonna, er því 64 grömm/dag. Nonni neytir 1500 hitaeininga og 20% hitaeininganna koma úr próteinum. Það merkir að grammafjöldi próteina er 75, sem er vel yfir ráðlögðum dagskammti. Aftur á móti ef um 40% væri að ræða, eins og ráðlagt er í Líkama fyrir lífið væri grammafjöldinn 150 sem er mun meira magn en þörf er á.

Næringarfræðingur „af gamla skólanum”

Á bls. 48 segir: „Þrátt fyrir það sem margir næringarfræðingar af gamla skólanum og aðrir „sérfræðingar” munu kannski segja þér þá eru mjög heilbrigðar og vísindalegar ástæður fyrir því að taka fæðubótarefni.” Fullyrðingu sem þessa hef ég oft fengið að heyra á þeim 12 árum frá því ég útskrifaðist sem næringarfræðingur og þá gjarnan frá söluaðilum fæðubótarefna. Sem næringarfræðingur finnst mér það hjákátlegt þegar sölumenn fæðubótarefna reyna að réttlæta markaðssetningu afurða sinna með því að gera lítið úr næringarfræðingum og segja þá vera “af gamla skólanum” sem fylgjast ekki með því sem er að gerast á sviði næringarfræðinnar. Þetta er ekki síst hjákátlegt fyrir þá sök að alltaf eru að koma betri og betri vísbendingar fyrir því að óhófleg fæðubótarneysla er líkama okkar skaðleg. Að sjálfsögðu er fæðubótarneysla á stundum nauðsynleg og enginn agnúast, mér vitanlega, út í hóflega fæðubótarneyslu; eins og þegar fólk fær sér eina fjölvítamín/steinefnatöflu á dag, teskeið af lýsi eða stöku sinnum “næringarduftdrykk” í staðinn fyrir hefðbundinn mat. Aftur á móti ber að vara við óhófsneyslu og einnig þegar verið er að reyna að telja fólki trú um að til að ná árangri, eins og í baráttunni gegn aukakílóum, þurfi það að gleypa mikið magn af næringardufti, töflum og pillum.

„12 vikur að andlegum og líkamlegum styrk”

Bókin Líkami fyrir lífið hefur selst gríðarvel hér á landi sem víða annars staðar. Ein ástæða þess er að mínu viti góð markaðssetning sem felst í því að gefa fólki möguleika á að keppa um háar peningafjárhæðir. Einnig má ekki gleyma að það þykir mjög söluvænt að sýna „eftir-“ og „fyrirmyndir” af fólki. Í bókinni má berja augum fjölmargar slíkar myndir og reynslusögur myndefnanna. Þar kemur fram að viðfangsefnin hafi náð gríðarmiklum árangri og það aðeins á 12 vikum enda er undirtitill bókarinnar „12 vikur að andlegum og líkamlegum styrk”. Það að hvetja fólk að keppa sín á milli og heita peningaverðlaunum til þeirra sem ná bestum árangri ýtir ávallt undir möguleikann á óheiðarleika. Og því miður veit ég dæmi þess að fólk sem hefur náð undraverðum árangri á 12 vikum, með að styðjast við Líkamann fyrir lífið, hafi leitað í hjálparmeðul til að flýta fyrir þol- og styrktaraukningu og leita í efni sem engan veginn teljast til fæðubótarefna, efna eins og efedrín og stera. þetta er ekki sagt til að varpa rírð á næringarduftið Myoplex (sem hvorki er betra né verra en margar aðrar tegundir næringardufts) heldur aðferðafræðina sem notast er við til að markaðssetja bókina og þar með það næringarduft sem mælt er með.

Læt hér staðar numið þó ég gæti týnt til ýmislegt fleira sem stangast á við hina góðu og gildu næringarfræði.

Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur