Ljósabekkir á meðgöngu

Spurning:

Mig langar svo mikið til þess að vita hvort ljósaböð séu leyfileg á
meðgöngu. Ég er komin 13 vikur á leið og hef farið nokkrum sinnum í
ljós. En ég set alltaf yfir mig handklæði, þ.e. yfir magann og er alltaf í
nærbuxum líka. Er það í lagi? Það er svo lítið talað um þetta en ég vil
vera viss um að geisluninn skaði ekki barnið og að ég sé að gera rétt.

Með fyrirfram þökk

Svar:

Sæl.

Það er ekki talið beint skaðlegt að fara í ljós á meðgöngu svo framarlega
sem þess er gætt að ofhitna ekki. Það er skynsamlegt hjá þér að hafa
handklæði yfir magann. Að auki skaltu láta vifturnar blása á þig á fullu.
Það er þó viturlegt að stilla ljósaböðum í hóf á meðgöngu (eins og reyndar
alltaf). Húðin er viðkvæm á meðgöngunni og það kemur fyrir að litarefnið
hleypur í kekki svo brúnkan kemur í skellum, með ljósari skellum á milli og
þetta hverfur ekki alveg eftir meðgönguna þannig að húðliturinn ber þess
varanleg merki.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir