Lúpus

Hver eru einkenni sjúkdómsins? Hverjar eru líklegustu afleiðingar þess að greinast með þennan sjúkdóm?

Góðan daginn og takk fyrir fyrirspurnina

Lúpus eða rauðir úlfar eins og hann er kallaður á íslensku er sjálfsofnæmissjúkdómur. Hann getur verið mjög óútreiknanlegur og getur lagst á flest líffærakerfi líkamans. Liðir, nýru, húð, slímhimna, lungu, heili, hjarta eða taugakerfið eru algengustu staðir sem sjúkdómurinn herjar á. Einkenni sjúkdómsins geta verið verulega mismunandi milli einstaklinga en þau hestu eru þreyta, hiti, verkir og stífleiki í liðamótum, hár blóðþrýstingur, útbrot á andliti, andþyngsli, þurr augu, höfuðverkur og fleira.

Orsakir sjúkdómsins eru ekki þekktar en líklegast hefur samblanda umhverfis- og erfðaþátta áhrif á þróun hans. Hins vegar eru þættir sem geta ýtt undir einkenni svo sem: sólarljós, sýkingar og sumar tegundir flogaveikislyfja, sýklalyfja og blóðþrýstingslyfja.

Lúpus er langvinnur sjúkdómur sem liggur í dvala milli þess sem hann blossar upp. Tilhneigingin er sú að með aldrinum dragi úr virkni sjúkdómsins en þó eru þess mörg dæmi að hann blossi upp á ný eftir margra ára hlé, jafnvel með nýjum einkennum.

Fólk með rauða úlfa þarf að verja sig vel fyrir sólarljósi, annað hvort með því að klæða sólina af sér eða nota öfluga sólarvörn.  Margir finna fyrir þreytu af völdum rauðra úlfa og verða að haga störfum sínum eftir því. Því getur verið ráðlegt að hvíla sig reglulega eða minnka við sig vinnu. Meðferðin við rauðum úlfum ræðst af virkni og útbreiðslusvæði sjúkdómsins og oft þarf að nota tvö eða fleiri lyf með mismunandi verkun. Meiri upplýsingar fást HÉR

Gangi þér vel

Rebekka Ásmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur