Lykkjan – er barnlaus

Spurning:

Sæll Arnar.

Ég er með spurningu sem ég hef verið að velta fyrir mér í svolítinn tíma. Ég á kærasta og stundum við kynlíf eins og flestir aðrir. Ég var alltaf á pillunni áður fyrr en mér hefur alltaf líkað svo illa við hana. Ég verð döpur, kynköld, óð í súkkulaði, nenni ekki að hreyfa mig, alltaf pirruð svo eitthvað sé nefnt. Ég var orðin svo leið á þessu og hélt í fyrstu að ég væri bara svona leiðinleg, en ákvað að prufa að hætta á pillunni og gerði það. Mér líkaði það svona rosalega vel, þótt ég tæki ekki eftir því fyrir en eftir langan tíma, fólkið mitt tók líka eftir því hvað ég var allt í einu aftur geðgóð. Ég hef prufað allskonar tegundir af pillu og alltaf er sama vandamálið, þannig að ég gafst upp á þessu og við kærastinn minn fórum að nota smokkinn og höfum gert það í svolítinn tíma (kannski 1 ár ef ekki lengur). Maður verður bara svo pirraður á smokknum og sérstaklega kærastinn. Ég ætla bara að koma mér beint að efninu og spyrja hvort að það séu einhverjar getnaðarvarnir sem henta okkur kannski betur. Ég hef ekki eignast barn en hef verið að lesa mér til um lykkjuna, er það alveg fráleitt að konur sem ekki eiga börn geta fengið lykjuna?

Með von um svar.

Svar:

Sæl.

Ef það er rétt sem mér skilst af spurningu þinni að þú hafir prófað margar tegundir getnaðarvarnapilla, er ekki vænlegt með pillunotkun. Samt er margt til ráða annað, svo sem getnaðarvarnarkrem, stílar, hettur og hormónagetnaðarvarnarsprautan sem endist í a.m.k 3 mánuði en getur að vísu gefið aukaverkanir sem líkjast þeim sem fást af pillutöku. Þá er á leiðinni hingað á markað ný tegund af getnaðarvarnar„staf“ sem komið er fyrir undir húð og endist í nokkur ár. Hann getur þó gefið aukaverkanir einnig, þar sem hormón eru í honum sem veita vörn gegn þungun. Lykkju vilja menn helst ekki setja í ungar stúlkur sem ekki hafa eignast börn, en stundum getur þurft að gera undantekningu á þessu þegar ekkert virðist tiltækt. Þú þarft því að setjast niður með lækni þínum og ræða það hvort hann telji óhætt að þú fáir lykkju eða hvort hann sjái meinbugi á því. Það krefst viðtals og skoðunar hjá lækni sem metur það í hvert sinn.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson, kvensjúkdómalæknir.