Lykkjan – uppsetning

Spurning:

Góðan dag.

Ég biðst afsökunar á því að vera að senda aftur fyrirspurn en ég var of fljót á mér að senda þá fyrri. Mig fýsir að vita hvort eðlilegt sé að það blæði eftir að lykkjan er sett upp. Enn fremur langar mig að vita hvort það sé eðlilegt að sársauki, sviði og örlitlir stingir fylgi í kjölfarið?

Með fyrirfram þökk.

Kveðja,
Par í vanda.

Svar:

Sæl og þakka ykkur fyrirspurnina.

Lykkjan er eins og þið væntanlega vitið lítill T-laga plasthlutur sem settur er inn í legið til að koma í veg fyrir þungun. Þar sem um aðskotahlut er að ræða tekur það líkamann oft tíma að „venjast” honum og því geta konur fundið fyrir óþægindum í nokkra daga. Þegar lykkjan er sett upp finna flestar konur fyrir einhverjum sársauka, en það er þó mjög mismunandi. Flestar konur finna einnig fyrir einhverjum óþægindum fyrst á eftir en algengast er að það lagist á einum til tveimur dögum. Til að minnka óþægindin getur þú tekið parasetamól eða ibúfen svo framalega sem þú hafir ekki ofnæmi fyrir þeim lyfjum. Algengt er að það blæði fyrsta daginn eftir að lykkjan er sett upp, en venjulega hætta blæðingarnar fljótt.
Blæðingar geta hins vegar orðið meiri og staðið lengur en venja var áður en lykkjan var sett upp. Einnig geta komið milliblæðingar. Þetta er misjafnt eftir lykkjutegundum. Ég vona að þetta gangi allt vel hjá þér, ef verkirnir hverfa ekki á nokkrum dögum er rétt að þú hafir samband við lækninn þinn.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.