Magaherpingur ungbarns

Spurning:

Góðan dag

Sonur minn er tveggja vikna og herpir sig mikið saman í maganum. Er það rétt að gott geti verið fyrir móðurina að sleppa öllum mjólkurmat úr fæðunni vegna þessa?

Kveðja E

Svar:

Magakveisa brjóstabarns vegna einhvers sem móðirin borðar er fremur sjaldgæf. Það er helst ef móðirin borðar eitthvað sem hún er ekki vön að borða, eins og t.d. mjög kryddaðan mat, að barnið getur fengið illt í magann. Einungis í fágætum tilvikum gæti borgað sig að sleppa mjólkurmat, en þá þarf að athuga að fá næringarefni mjólkurinnar úr öðrum fæðutegundum. Slíkt ætti helst að gerast með aðstoð næringarráðgjafa, að undangenginni rannsókn á því hvort um fæðuóþol sé í raun að ræða hjá barninu. Algengasta orsök magakveisu er röng aðferð við brjóstagjöf. Ef barnið nær ekki að ljúka sér vel af á öðru brjóstinu áður en því er boðið hitt brjóstið nær það ekki að drekka rjómann (eftirmjólkina) sem kemur síðast í gjöfinni. Þá fær það bara undanrennuna (formjólkina) sem er vatnsmikil og full af mjólkursykri. Mjólkursykurinn getur valdið því að mikil loftmyndun verður í þörmunum og fæðan nýtist illa – mjólkin fer hálfmelt í gegn. Þessu fylgir mikill vindgangur og oft á tíðum vatnskenndar, grænleitar hægðir. Vindgangurinn myndast vegna lofts sem verður til í þörmunum, svo það hefur litla þýðingu að láta barnið ropa í tíma og ótíma. Betra er að gefa barninu annað brjóstið þar til það sleppir sjálft, eða sýgur 3-4 sinnum milli þess sem það kyngir. Ef barnið sýnir áhuga á að drekka meira má bjóða því hitt brjóstið en að öðrum kosti bíður brjóstið bara þar til í næstu gjöf. Ef barnið hefur ekki náð að ljúka vel úr brjóstinu, en vill svo drekka meira áður en tveir klukkutímar hafa liðið frá gjöfinni, má bjóða því sama brjóstið aftur. Þannig temprast mjólkurmyndunin og aðlagast þörfum barnsins.

Það getur tekið nokkrar vikur frá fæðingu barnsins þar til brjóstagjöfin er komin í gott jafnvægi. Móðir og barn þurfa að venjast brjóstagjöfinni og meltingarfæri barnsins að aðlagast. Ekki er ólíklegt að tveggja vikna gamalt barn eigi einungis eftir að aðlagast betur og mjólkurmyndun móðurinnar að komast í takt við þarfir barnsins.

Kær kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir