Spurning:
Komið þið sæl.
Ég vantar aðstoð við að ákveða mataræði 11 ára gamallar dóttur minnar. Hún hefur svo mikla matarlyst, að hún borðar meira en meðal fullorðin manneskja.
Þó við séum nýbúin að borða þá getur hún endanlaust tekið við meiru. Hún fær bara sætindi og aðra óhollustu á laugardögum. Ef ég væri ekki stanslaust að vakta hana, veit ég ekki hvernig hún liti út. Það sem ég er líka hrædd við er hennar sálræna ástand, vegna þyngdarinnar. Ég reyni að leiðbeina henni og auðvitað getur verið erfitt fyrir hana. Hún er mjög meðvituð um hvað hún borðar og hvað hún má ekki borða. En málið er að henni finnst allur matur mjög góður.
Með kveðju.
Svar:
Komdu sæl.
Hafa skal hugfast að neysluvenjur barns markast að miklu leyti af því þroskaferli sem það gengur í gegnum. Barnið virðist stundum botnlaust og á öðrum tímabilum virðist það lifa á vatni og lofti einu saman. Þrátt fyrir þetta er orkuefnaneysla flestra barna ótrúlega stöðug þar sem orkuneyslan helst í hendur við líkamlega þörf. Börn sem eiga við ofþyngdarvanda að stríða skera sig þó úr þar sem þau borða gjarnan vegna áhrifa ytri áreita og því líklegri til að borða yfir sig. Dæmi um ytri áreiti er gott bragð (barnið hættir ekki að borða þó það sé orðið satt) og hvatning foreldra um að klára matinn. Barn sem hefur eðlilegan „neyslustoppara“ hunsar slíkar hvatningar en barn sem hneigist til ofþyngdar klárar matinn möglunarlaust. Mér heyrist á lýsingu þinni að dóttir þín hafi ekki eðlilegan „neyslustoppara“.
Ef eðlilegur „neyslustoppari“ er ekki til staðar hjá barninu þarf að grípa til markviss aðhalds þar sem fjölskyldumeðlimir (s.s. foreldrar, systkini, ömmur, afar) kappkosta að leiðbeina barninu og veita því aðhald sem það svo sannarlega þarf á að halda.
Áhrifaríkasta vopnið er eflaust það að foreldrar barnsins (eða aðrir þeir sem hafa með forræði þess að gera) temji sér heilbrigðar neyslu- og hreyfivenjur. Foreldrar eru í flestum tilfellum helsti mótunaraðili barna sinna og því er mikilvægt að þeir geri jákvæðar breytingar (ef þörf er á) á mataræði- og hreyfivenjum sínum því að annars taka börnin ekkert mark á þeim. Hvaða foreldri getur til að mynda ætlast til þess að barnið fái sér epli ef mamman/pabbinn eru á sama tíma að gæða sér á súkkulaði eða kartöfluflögum? Ef foreldrar hafa tileinkað sér gott mataræði og eru duglegir að hreyfa sig ættu þeir að vera í stakk búnir til að aðstoða barnið:
*Með því að hvetja það:
til að borða hægt.
til að gefa sér tíma og ræða við þá sem sitja með því til borðs.
til að hætta að borða þegar það er orðið satt.
*Með því að kenna því að velja sér fitulítið snakkfæði og að skammta sér hæfilega á
diskinn.
*Með því að þvinga það aldrei til að klára af diskinum.
* Með því að hvetja til reglubundinnar hreyfingar eins og að hjóla, synda, stunda boltaíþróttir, skokka.
* Með því að forðast að koma boðskapnum til skila með frekju og yfirgangi. Annars er sú hætta fyrir hendi að barnið skilji skilaboðin á þann veg að það sé einskis virði nema ef líkamsþyngdin er lág og slíkur þrýstingur kann að ýta undir afbrigðilega neyslu eins lotugræðgi eða lystarstol.
Að lokum vil ég geta þess að ég vinn við næringarráðgjöf og hef áralanga reynslu í að vinna með börnum og foreldrum. Ef þú hefur áhuga á að fá upplýsingar um fyrirkomulag slíkrar ráðgjafar er þér velkomið að hafa samband við mig í síma 8686-351.
Kveðja,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur