Matarfíkill – hvað get ég gert?

Spurning:
Halló!!
Ég er 29 ára og verð 30 um mitt þetta ár. Ég er um 100 kíló og er 165cm á hæð. Ég er líka með vefjagigt og á erfitt með að taka mikið meira á en ég geri dags daglega. Ég er bóndi og moka heyi í 2 og 1/2 tíma á dag. Ég á 3 börn og þarf auðvitað að hugsa um þau. Ég er líka matarfíkill ég borða allan daginn, mér finnst ég vera að bregðast sjálfri mér og fjölskyldunni. Þó svo að ég sé örþreytt á kvöldin þá get ég ekki sofnað. Það sem ég er að spá í hvað á ég að gera. Ég veit ég verð að léttast en mér finnst ég vera búin að vera í stanslausri megrun síðan ég var 20 ára. Með fyrirfram þökk

Svar:
Sæl.
Mér sýnist vandamálið snúast að mestu um neysluvenjur þínar. Þú virðist vera komin á það stig að þú hafir viljann til að gera eitthvað í málinu og það er stórt og jákvætt skref. Ég ráðlegg þér að bregðast við strax á meðan þú ert tilbúin að taka af skarið. Ég myndi telja mikilvægt að þú komist í einhvers konar ráðgjöf. Nú veit ég ekki hvar þú býrð og e.t.v. er langt að fara til að sækja slíkt  en það er vel á sig leggjandi að komast t.d. 1x í viku til ráðgjafa, næringarráðgjafa eða sálfræðings til að fá aðstoð við að byggja þig upp og ná tökum á neyslumynstri þínu. Ég vil einnig benda þér á nýju bókina mína ,,Í form á 10 vikum“ en þar er að finna mikinn fróðleik og hvatningu til að breyta um mataræði og takast á við aukakílóin. Hún fæst í öllum helstu bókaverslunum og hjá mér í Hreyfingu. Ef þú hefur viljann að vopni þá eru þér allir vegir færir. Ég hvet þig til að drífa í því að ná þér í bókina og leita upplýsinga um ráðgjafa. Það er vont fyrir sálartetrið að vera í því ástandi sem þú lýsir og svo auðvelt að komast út úr því bara ef þú tekst á við það.
 
Bestu kveðjur,
Ágústa