Spurning:
Góðan daginn.
Hvers vegna er ófrískum konum ráðlagt að teygja sig ekki of mikið upp, eins og t.d við að hengja upp gardínur. Ég var í smá hreingerningum s.l helgi og var að þurrka af viftuspöðum fyrir ofan rúmið mitt og þurfti því að teygja mig ansi hátt upp. Góð vinkona mín sem er hjúkka, benti mér á (eftir helgi, náttúrulega) að ófrískar konur mættu ekki teygja sig upp þar sem naflastrengurinn gæti vafist utan um háls fóstursins. Ég er tæpar 34 vikur gengin og er búin að vera að hugsa um þetta stöðugt síðan. Ég hef reyndar alveg fundið góðar hreyfingar eftir þessa tiltekt en ég hélt að fóstrið væri svo vel varið þarna inni í móðurkviðnum og get líka ekki ímyndað mér hvernig þetta á að geta gerst. Ætti ég samt sem áður að láta að athuga hvort allt sé í lagi, eða er þetta ekkert til að hafa áhyggjur af fyrst hreyfingarnar hafa verið góðar? En útskýringar hvernig þetta gerist og hvort t.d lega fylgjunnar hafi einhver áhrif, væru vel þegnar. Eins líka ef mikil hætta stafar af þessu, þá finnst mér alveg að ljósmæðurnar mættu nefna þetta við konurnar í mæðraverndinni, ekki síst þar sem þessi tími hreingerninganna er framundan. Kveðja, ein í hreingerningum!
Svar:
Alveg er með ólíkindum hvað gamlar kerlingabækur geta lifað lengi – og það meðal fólks sem ætti að vita betur. Það hefur aldrei verið sýnt fram á að meiri hætta sé á að naflastrengur vefjist um háls barns við það að móðirin teygji sig upp, enda hvers vegna ætti það að gerast frekar heldur en við það að móðirin liggi, syndi eða skríði?? Vertu ekkert að hlusta á svona vitleysu sem veltur upp úr fólki og haltu bara þínu striki. Það er mun meiri hætta á að slasa sig við að detta úr stiga eða af stól við jólahreingerninguna en að naflastrenguarinn vefjist um háls barnsins. Gangi þér bara vel.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir