Meiðsli í hné

Spurning:

Góðan daginn.

Ég er búinn að lesa allt á vefnum sem mér finnst gæti átt við meiðslin mín en er samt ekki alveg viss og vildi því senda ykkur fyrirspurn vegna tveggja meiðsla sem hrjá mig. Ég er 22 ára og er búinn að spila fótbolta lauslega í nokkur ár og svo búinn að æfa og spila af fullum krafti s.l. 2-3 ár.

1. Ég finn aðallega til fyrir neðan hnéskelina hægra megin, helst þegar ég spyrni í fótinn í hreyfingum eins og að ganga upp stiga, beygi mig og stend upp aftur, þegar ég hleyp, er í lyftingatækjum eða hoppa upp á fætinum (verkurinn er oftast mestur þegar ég er alveg við það að vera búinn að rétta úr fætinum). Ég hef fundið fyrir þessu öðru hvoru eftir að ég byrjaði að æfa af fullum krafti (helst þá þegar mikið álag er og þegar ég skipti á milli gervigrass og venjulegs grass), en núna er verkurinn stöðugur þegar ég hreyfi mig.

2. Ég finn til í aftanverðum hægri fætinum rétt fyrir ofan ökklann (hásin sennilega) þegar löppin teygist eða ýtist til baka (t.d. þegar maður sparkar í bolta og hann lendir framarlega á löppinni og hún „beyglast“ afturábak). Ég hef tvisvar lent í því að kálfavöðvinn rifni eftir högg og ég býst við því að þetta gæti verið afleiðingar vegna þess.

Hvað gæti þetta verið og hver gætu verið úrræðin?
Ef ég fer til læknis, ætti ég þá að fara til heimilislæknis eða einhvers sérfræðings (mér finnst heimilislæknirinn oft ekki taka svona hluti nógu alvarlega)?
Kærar þakkir.

Svar:

Sæll.

1. Það sem þú gætir verið að lýsa í fyrri fyrirspurninni er svokölluð Osgood-Slatter einkenni. En það er ástand þar sem festan á lærvöðva rétt fyrir neðan hné bólgnar upp þar sem hún festist við beinið. Ástæðan fyrir þessu er sennilega ofálag. Þú gætir reynt hvíld, sérstaklega reynt að forðast þær aðstæður sem valda verknum. Prufað að nota ís eða hita og að hafa hnéhlíf sem heldur hita. Haft samband við lækni sem sérhæfir sig í íþróttameiðslum og jafnvel í sjúkraþjálfun í framhaldinu.

2. Þarna átt þú líklega kollgátuna. Samgróningar gætu hafa myndast í vöðvunum eftir áverkana, vöðvarnir vinna jafnvel ekki eins og skyldi og aukið álag er á hásin. Fyrir utan það að vel má vera að hásinin hafi orðið fyrir áverka líka. Möguleiki er á að styttingar séu í vöðvunum og jafnvel bólga í hásin. Það fylgir ekki sögunni hvernig gengur að teygja vöðvana. Þú ættir að prufa að teygja kálfann með bæði bogið og beint hné þar sem þú nærð í mismunandi vöðva með því og ekki er vitað hvort einn eða fleiri vöðvar hafa orðið fyrir skaða. þú gætir einnig reynt hvíld, sérstaklega eins og áður sagði að forðast það sem vekur upp verkinn. Haft samband við lækni og jafnvel farið í sjúkraþjálfun í kjölfarið.

Með kveðju,
Guðrún Káradóttir sjúkraþjálfari