Meltingaróregla

Ég er 22 ára gömul kona og hef verið með meltingaróreglu síðustu misseri. Vandamálin lýsa sér með niðurgangi og vindgangi sem fylgja miklir verkir og hafa í för með sér tíðar klósettferðir. Oftast stigmagnast ástandið ef ég er undir miklu álagi eða streitu. Ég borða hvorki mjólkurvörur né kjöt, borða aðallega grænmeti, ávexti, hnetur, fræ, baunir og hafra. Neyti ekki áfengis og hætti að drekka kaffi þegar ég byrjaði að fá magaverkina. Að auki hreyfi ég mig 6-7 sinnum í viku og stunda jóga og hugleiðslu inn á milli. Fyrir nokkrum vikum varð ástandið svo bagalegt að ég fór í apótekið og keypti Imodium og Imogaze. Hið fyrrnefnda sló á niðurganginn en vindgangurinn jókst og sömuleiðis varð maginn verulega útþaninn. Núna er ég hins vegar að fá hægðatregðu en vindgangurinn hættir ekki. Vissulega hljómar þetta eins og einhvers konar fæðuóþol, eins og glútenóþol en samt hefur mér ávallt tekist að melta það ágætlega. Mig dettur helst í hug að þetta gæti verið ristilkrampi/iðraólga. Ég mun að öllum líkindum panta mér tíma hjá meltingarsérfræðingi en ég er búsett erlendis og langar helst að fara til sérfræðings heima.

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina

Mér sýnist þú vera mjög meðvitaða um flest sem þú getur gert sjálf, m.t.t. mögulegs laktósaóþols og mataræðið virðist  nokkuð fjölbreytt og hollt. Sumir sem borða mikið grænmeti eru með lausari hægðir en venjulega og eins eru sumar grænnmetistegundir og baunir sem valda gerjun í meltingarveginum og þar með miklum vindgangi. Viðtal við næringarfræðing gæti þannig gagnast þér til þess að finna út hvort það er eitthvað sem þú ættir að forðast í mataræðinu. Að sama skapi tel ég ráðlegt fyrir þig að fá skoðun og mat hjá lækni. Venjulegur heimilislæknir getur hjálpað þér með ákveðnar grunnrannsóknir og mögulega ef ástæða er til, sent þig í maga og/eða ristilspeglun og þá vísað þér áfram til meltingarérfræðings ef ástæða er til.

Gangi þér vel

Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur