Meðganga: Blæðing úr brjóstum

Spurning:

Blessuð. Mig langar að spyrja þig að einu. Systir mín er komin um það bil 21 viku á leið og í nótt komu nokkrir dropar af blóði úr brjóstunum á henni! Getur þú sagt mér hvað hún á að gera og hvað þetta getur verið?

Kveðja.

Svar:

Sæl.

Algengasta skýring á blóðleka úr brjóstum hjá konum á meðgöngu er að háræðarnar inni í brjóstinu og geirvörtunni rofna þegar þær verða viðkvæmari vegna hormónaáhrifa. Líkt og á meðgöngu blæðir oftar úr tannholdinu við burstun og konur fá oftar blóðnasir. Þetta er því yfirleitt alveg skaðlaust. Til að stöðva svona blæðingu er best að þrýsta framan ágeirvörtuna eða taka þéttingsfast utan um hana og vörtubauginn næst henni smástund. Ef blæðir oft eða mikið ætti hún þó að ræða um þetta við lækni í mæðravernd til að útiloka sjúkdóma í brjóstum.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir