Spurning:
Ég á dóttur sem búsett er erlendis og er ófrísk. Hún hefur hún ekki ennþá verið skoðuð af lækni heldur eingöngu ljósmóður. Í morgun varð hún vör við smáblæðingar og er áhuggjufull vegna þessa. Hún hefur orðið ófrísk 2 sinnum áður en missti fóstrið í bæði skiptin, mislangt gengin með. Hún er í dag orðin 28 ára gömul. Mig langar að fá einhver svör/ráðleggingar um hvað hugsanlega geti verið að ske og einnig hvort óhætt sé fyrir hana að fljúga heim komin fjóra mánuði á leið, hafandi í huga þessar blæðingar sem ég áður sagði frá.
Með fyrirfram þökk fyrir svör
Áhyggjufull amma
Svar:
Dóttir þín ætti að tala við sína ljósmóður og bera þetta undir hana. Það er nokkuð algengt að aðeins blæði úr leghálsi eða frá fylgjurönd án þess að það hafi skaðlegar afleiðingar og yfirleitt hættir slík blæðing af sjálfri sér. Konum í þessari stöðu er ráðlagt að hvílast og sjá hvort blæðingin hættir ekki. Ef hún heldur áfram eða eykst þarf konan að fá skoðun hjá ljósmóður og lækni. Best er fyrir hana að tala við þá sem hún er í mæðraverndinni hjá eða næstu kvennadeild. Þér láðist reyndar að geta þess hve langt hún er gengin núna en ef blæðingin hættir og ekkert blæðir síðustu 1-2 vikurnar áður en hún á að fljúga ætti henni að vera það alveg óhætt kominni 16 vikur á leið.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir