Spurning:
Góðan dag.
Ég gerði þungunarpróf og það var jákvætt. Ég hafði síðast blæðingar 19. mars sl. en 26. apríl kom brúnleit útferð og stóð í nokkra daga. Það kom einnig blóð eftir samfarir. Ég er 37 ára, á tvö börn, 4 og 16 ára, en varð aldrei vör við þetta á fyrri meðgöngum.
Hvað á ég að gera? Er ástæða fyrir mig að fara til læknis strax (bý úti á landi þar sem ekki er aðgangur að kvensjúkdómalækni).
Með fyrirfram þökk.
Svar:
Sæl.
Það er ekki óalgengt að það blæði aðeins hjá konum í byrjun meðgöngu – oft um það leiti sem blæðingar hefðu annars komið. Svona brúnleit útferð er yfirleitt merki um gamla blæðingu – e.t.v. frá því að eggið kom sér fyrir í slímhúð legsins. Það er lítið sem þú getur gert og ekki rík ástæða til að sjá lækni nema blæðingin haldi áfram og verði að ferskri blæðingu. Þú gerðir e.t.v. rétt í að sleppa samförum þar til þetta hefur alveg hætt þótt samfarirnar sem slíkar hafi tæplega valdið þessari blæðingu. Stundum blæðir aðeins úr leghálsinum við samfarir á meðgöngu vegna þess að æðarnar verða viðkvæmari – bara eins og konum á meðgöngu er hættara við að fá blóðnasir. Það er heldur ekkert til að gera sér mikla rellu út af.
Vona að þetta gangi allt saman vel.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir