Meðganga: Erting við kynfærin

Spurning:

Halló.

Ég er með fyrirspurn um meðgöngu, málið er að ég er á tíundu viku og hef verið með mikla ertingu við kynfærin og finnst þetta frekar óþægilegt, hef verið með þetta núna í tvo daga og er svona smá áhyggjufull yfir þessu. Það er ekki vont að pissa eða neitt svoleiðis, bara svona sviði og erting þegar ég þurrka mér. Vonandi getur einhver hjálpað mér með þetta því að ég er nú pínu áhyggjufull yfir þessu því ef eitthvað er að þá vill maður nú ekki stefna fóstrinu í einhverja hættu. Vonast eftir svari eða ábendingu hvað þetta gæti verið.

Kveðja

Svar:

Sæl.
Kláði og erting á kynfærum getur verið merki um sveppasýkingu eða kynfæraáblástur svo þú skalt nú láta lækni kíkja á þig. Sveppasýkingar í kynfærum eru tiltölulega algengar á meðgöngu og þótt þannig sýking sé óþægileg er hún sjaldnast skaðleg fyrir fóstrið. Það getur hins vegar verið erfitt að fá sig fyllilega góða fyrr en eftir að meðgöngu lýkur því sýrustigið í leggöngunum breytist á meðgöngunni þannig að sveppurinn á auðveldara með að fjölga sér. Til að halda vexti sveppa niðri hefur mörgum konum gefist vel að nota mjólkursýrugerla sem fást í hylkjum í apótekinu. Kynfæraáblástur er hins vegar erfiðara mál og þess vegna er svo mikilvægt að láta greina þarna á milli.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir