Meðganga: gyllinæð eða aðrar bólgur?

Spurning:

Góðan daginn.

Ég er komin 30 vikur á leið á minni annarri meðgöngu. Ég hef verið svo rosalega slæm af kláða og bólgum, að það fyrsta sem mér datt í hug var að ég væri með sveppasýkingu. Ég hef reyndar aldrei fengið svoleiðis áður, þannig að ég prófaði Pevaryl bæði krem og þrjá stíla. Kláðinn lagaðist en ekki bólgurnar. Ég er bæði með miklar bólgur við endaþarm og skapabarma. Mér var þá bent á að þetta gæti verið gyllinæð, þ.e. hún gæti verið svona framarlega líka.

Ég er samt mjög misjöfn og versna mjög ef ég labba mikið og hreyfi mig, eða bara ef ég stend mikið. Er eitthvað hægt að gera í þessu eða þarf ég bara að passa mig á því að standa ekki mikið?

Get ég beðið um að verða skoðuð í mæðraskoðuninni? (er í MFS á Landspítalanum) eða ætti ég að panta tíma hjá kvensjúkdóma/fæðingarlækni?

Takk fyrir.

Svar:

Sæl.

Það er rétt að það geta myndast æðahnútar á skapabörmunum á meðgöngu og lýsing þín á að nokkru leyti við það. Æðahnútar sem myndast á skapabörmum verða einmitt verri ef konan er mikið á fótum – gengur mikið eða stendur lengi. Oft skána óþægindin við að leggja kaldan bakstur við eða hvílast um stund á fjórum fótum og vitaskuld sleppa því að ganga mikið eða standa lengi. En til að vera viss um að þetta séu æðanútar en ekki bólgur af öðrum orsökum teldi ég réttast að þú létir lækni líta á þig.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir