Meðganga með iliostomíu?

Spurning:
Góðan daginn
Getið þið frætt um mig um meðgöngu kvenna sem eru með stómíu? Ég hef verið að reyna að eignast barn og hef verið með iliostómíu í 10 ár. Getur meðganga haft áhrif á stómíuna eða öfugt? Get ég gengið með tvíbura jafnt og aðrar konur eða mun það hafa skaðlega áhrif á stómíuna? Ég veit að þegar ég eignast barn þá mun það verða keisarabarn þar sem ég hef möguleika á því að fá garnapoka í stað stómíunar en þá verður endaþarmurinn að vera heill (má ekki rifna við fæðingu). Með von um að þið getið frætt mig um þessa hluti. Kv.

Svar:
Komdu sæl.
Konur sem eru með iliostomíu og colostomiu hafa í mörgum tilvikum gengið með og eignast börn. Margar hafa gert það án teljandi vandkvæða en vitaskuld geta komið upp erfiðleikar varðandi stomíurnar t.d. vegna þrýstings á garnirnar og tilfærslu þeirra eftir því sem legið stækkar og slöknunar í kviðvöðvum og mjúkvefjum líkamans sem getur valdið þvi að gatið stækkar eða breytist þannig að endurskoða þarf umbúnað stómíunnar. Ennfremur breytist hægðamynstur oft á meðgöngunni og þá þarf að aðlaga mataræði að því. Það fer eftir legu stómíunnar og frágangi á henni hvort ráðlegt getur talist að konan fæði á eðlilegan hátt en það er þó alveg inni í myndinni. Hvað varðar tvíburameðgöngu þá er hún alltaf erfiðari og þan á kvið getur orðið töluvert þannig að stómíunni stafi e.t.v. hætta af því. Það fer þó talsvert eftir því hvernig þín stómía er og hvernig holdafari þínu og almennu líkamsástandi er háttað hvort meðganga og fæðing er æskileg og til að hafa vaðið fyrir neðan þig ættir þú að!

Tala við lækninn sem gerði aðgerðina og stómíuhjúkrunarfræðing sem getur gefið þér ráð miðað við þínar aðstæður.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir