Meðgöngueitrun, mig vantar upplýsingar?

Spurning:

Sæl Dagný.

Ég er komin fimm mánuði á leið og er að velta því fyrir mér hvort meðgöngueitrun komi á einum degi eða hvort eitrunin taki einhvern tíma að byggjast upp? Ég fór í mæðraskoðun í gær og það var smá eggjahvítuefni í þvaginu en mér var sagt að hafa engar áhyggjur af því. Þarf að fylgjast meira með konum sem hafa smá eggjahvítu í þvaginu, ef blóðþrýstingurinn er eðlilegur. Er eðlilegt að hafa eggjahvítuna í þvaginu þegar konur eru ófrískar. Ég er einnig með bjúg á fótunum, sem mæðraskoðunin segir vera saklaus bjúgur. Hvenær er bjúgur orðinn hættulegur?

Með von um svar sem fyrst því ég hef miklar áhyggjur af þessu.

Kær kveðja.

Svar:

Sæl.

Meðgöngueitrun er flókið fyrirbæri sem ekki er að fullu rannsakað. Oft fá konur væg einkenni meðgöngueitrunar, eins og bjúg og vott af eggjahvítu í þvagi, án þess að það verði neitt meira eða skaði móður eða barn. En það er vel fylgst með þessu í meðgönguverndinni vegna þess hve þetta er lúmskur sjúkdómur. Ef meðgöngueitrun verður mikil er yfirleitt búinn að vera aðdragandi að því, en hún getur líka komið skyndilega á nokkrum dögum og er það yfirleitt alvarlegt ástand ef það gerist. Ef um alvarlega meðgöngueitrun er að ræða fara oftast saman hækkaður blóðþrýstingur, bjúgur og eggjahvíta í þvagi. Smávægileg eggjahvíta og lítilsháttar bjúgur eru yfirleitt saklaus ef blóðþrýstingur helst skaplegur. Konur geta m.a.s. verið með töluverðan bjúg án þess að það tákni nokkuð slæmt. Einnig getur komið eggjahvíta í þvagið ef smá útferð fer með þvaginu í bollann sem stixað er úr.
Það sem gildir gegn meðgöngueitruninni er að hvílast vel, borða próteinríkt fæði og drekka mikið af hreinu vatni, sleppa auka salti og sykri úr matnum, gæta að þyngdinni og hreyfa sig hóflega. Mörgum gefst einnig vel að fara í sund nokkrum sinnum í viku.
Ef þú hefur miklar áhyggjur af þessu ættir þú að sjálfsögðu að ræða það við ljósmóðurina þína í mæðraverndinni og fá útskýriningar og ráðleggingar varðandi ástand þitt.

Gangi þér vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir