Mér finnst ég hafa svo lítil brjóst?

Spurning:
Hæ, vona að ég fái komment. Málið er að mér finnst ég vera með alltof lítil brjóst. Svo mér finnst beinlínis óþægilegt að vera nakin fyrir framan kærastann minn. Samt vil ég ekki fara í brjóstastækkunaraðgerð.

 

Svar:

Ég veit ekki alveg hvað þú vilt að ég segi. Þó get ég sagt að mér finnst gott að þú sért skýr með hvað þú vilt ekki og ég styð þig í því að vilja ekki fara í brjóstastækkunaraðgerð. Það er sjaldgæft að finna læknisfræðilega ástæðu sem réttlætir að farið sé í brjóstastækkun. Svoleiðis aðgerðir eru mun sjaldgæfari en brjóstaminnkunaraðgerðir enda mun óþægilegra að vera með brjóst sem konan bókstaflega er að sligast undan, fær slæma bakverki og þar fram eftir götunum. Ég vil ekki gera lítið úr vanlíðan þinni en hefur þú orðið vör við að kærastinn þinn sé eitthvað ósáttur við brjóstastærð þína? Ég velti því fyrir mér því það er afskaplega sjaldan að kærastar séu nokkuð að velta sér upp úr brjóstastærð sinnar heittelskuðu. Lang oftast finnst þeim æsandi að gæla og kyssa brjóst elskunnar sinnar, sama hver stærðin er. Brjóstastærð skiptir heldur engu máli þegar litið er á eiginleika brjósta til að skynja kynferðislega örvun. Öll brjóst hafa geirvörtur, taugaenda og í öllum er að finna mjólkurkirtla, fitu-og bandvef. Það sem ræður f.o.f. brjóstastærð er magn þess síðastnefnda. Það er því ekki hægt að stækka brjóstin með æfingum. Aðeins er hægt að styrkja þá vöðva sem halda brjóstunum uppi.

Ég veit ekki hvort mér hefur tekist að stappa í þig stálinu, þú veist þetta kannski allt saman. Stundum vex óöryggi af þessu tagi af stelpum með tímanum. Þegar þær þroskast og takast á við lífið, vex sjálfsöryggið.  Þegar það gerist eru stelpur eða konur minna að velta sér upp úr brjóstastærðinni heldur njóta þess meira hvað þær hafa. En erfiðasta leiðin en jafnframt sú árangursríkasta er að hafa orð á þessu við kærastann og mér segir svo hugur að viðbrögð hans verði til þess að þú farir minna og minna að hugsa um þetta.