Spurning:
Sæll.
Ég er 22 ára stúlka og mér hefur liðið mjög illa í langan tíma. Sem
unglingur var ég mjög þunglynd og reyndi að fyrirfara mér og óttast að ég sé að falla í sama farið aftur.
Ég tek herfileg grátköst, oft upp úr þurr, stundum í vinnunni, bíó,
matarboðum eða afmælum. Suma daga er ég svo leið og döpur að ég fer ekki fram úr og mæti ekki í vinnuna. Ég geri ekki handtak heima fyrir, ég er hætt að þrífa og draslið hrannast upp í kringum mig.
Stundum fæ ég kvíðaköst, þá er eins og það sé lok í hálsinum á mér og einhver standi á bringunni á mér. Það gengur þó sem betur fer hratt yfir. Stundum velti ég því fyrir mér hvað ég er að gera hér því mér finnst ég ekki gera neitt rétt og allir aðrir gera hlutina miklu betur en ég. Mér finnst eins engum líki við mig og ég hef það
alltaf á tilfinningunni að verið sé að tala illa um mig.
Ég tók þunglyndisprófið ykkar hér á Doktor.is og fékk 77 stig.
Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af? Er þörf á að leita hjálpar eða er þetta bara léleg sjálfsmynd sem ég glími við?
Með von um svar.
Svar:
Heil og sæl.
Þú spyrð hvort líðan þín sé eitthvað til þess að hafa áhyggjur af eða hvort einfaldlega sé um svona lélega sjálfsmynd að ræða. Mér sýnist að hér sé um meira en lélega sjálfsmynd að ræða. Þú lýsir mjög greinilegum einkennum þunglyndis og kvíða sem ber að taka alvarlega og leita hjálpar sem allra fyrst. Það er ekkert líf að geta ekki unnið, hirða ekki um sig og finnast allir vera betri og að þeir séu að tala illa um mann. Ég ræð það af bréfi þínu að þú hafir ekki leitað mikið eftir hjálp þegar þú varst unglingur og
vildir ekki lifa lengur.
Ég er viss um að einhver úr hópi sálfræðinga eða
geðlækna getur hjálpað þér. Meðferð miðaði að því að létta þunglyndið, minnka kvíðann og byggja upp jákvæðari sjálfsmynd.
Bestu kveðjur og ósk um gott gengi.
Hörður Þorgilsson, sálfræðingur