Mig vantar ráð við járnleysi

Spurning:

Ágæti Sérfræðingur.

Ég er járnlaus enn einu sinni. Mig langar að vita hvað ég má EKKI borða, ég er ekki mikil súkkulaði manneskja en núna er ég alveg svaðalega veik fyrir því, bara af því ég má ekki borða það (étur það ekki upp járnið?)

Svona hefur þetta verið:
Ég tek inn Ferlen-R. Ég hef ekki miklar blæðingar. Um daginn leið yfir mig og ég skall í gólfið, ég hef meiri svima en venjulega, ég get ekki hreyft mig snögglega, horft snögglega upp eða beygt mig í hnjánum. Ég get ekki staðið upp nema allt sé á „stórsjó“. Ég er þurr í munninum og fæ sár í munnvikin.

Ég er með lágan blóðþrýsting og tek inn Efexor, hefur það áhrif á það að járnið hverfur?

Ég var að vinna á leikskóla þegar ég mældist -1 í járni og ekki er matarræðið þar slæmt.

Maðurinn minn fær ekki heitan mat í hádeginu svo ég elda handa okkur og dætrum okkar tveimur á kvöldin. Þá elda ég kjöt, pasta, fisk og súpur til skiptis, svo ekki það ruslfæði.

Vonandi getur þú gefið mér einhver svör.

Kærar þakkir.
Ein járnlaus.

Svar:

Sæl.

Þú virðist borða næringarríkan mat og tekur auk þess járntöflur, svo ef þú
ert blóðlaus er það væntanlega af öðrum ástæðum en vegna mataræðisins.
Súkkulaði hefur ekki slæm áhrif á járnið, svo það er varla sökudólgurinn.
Þú ættir endilega að fara til heimilislæknis til að láta kanna hvers vegna
það líður yfir þig, það getur eins verið vegna þess hvað blóðþrýstingurinn
er lágur. Járnríkar matvörur eru kjöt, slátur, dökkgrænt grænmeti eins og
brokkólí, og einnig morgunkorn og gróf brauð. Til að nýta járnið úr
morgunkorninu og brauðinu skiptir máli að borða ávexti eða grænmeti með
kornmatnum eða drekka ávaxtasafa.

Kveðja,

Laufey Steingrímsdóttir, næringarfræðingur.
Laufey er forstöðumaður Manneldisráðs og situr í stjórn Hjartaverndar.