Spurning:
Mig langar að fá upplýsingar varðandi rúmlega 4 vikna dóttir mína (fyrsta barn) hún er mjög vær og góð og þyngist vel. Ég mjólka óhemju vel og vandamálið er að mér finnst hún ekki ná að tæma brjóstið og fá eftirmjólina (rjómann) því vill hún drekka oft svo örvunin er stöðug. Ég hef 2x fengið minni háttar stíflur en náð að losa þær með heitum bökstrum, auknu sogi og þegar verst var tæmdi ég mig sjálf. Það sem ég held að sé að er að hún hefur mjög mikla sogþörf og stundum endar hún brjóstagjöfina á að vilja totta og hafa það gott. Hvenær er okkur óhætt að prófa að gefa henni snuð? Það gæti e.t.v. komið á móts við sogþörfina eða hvað? Og hvaða tegund af snuði væri þá best?
Annað, hvenær er líklegt að smá regla fari að koma á svefnvenjur hennar? Hún virðist vilja sofa á daginn og vaka til ca. 4 á nóttunni en er samt ekki með nein leiðindi eða í maganum, bara svona að dúlla sér. Svo er það með að sofa úti í vagni hvernig er það, er það ráðlegt svona á þessum árstíma hjá svona litlu barni? Eða hvað?
Með fyrir fram þökk
Svar:
Það er gott að þú hefur næga mjólk handa stúlkunni þinni – margar konur eru einmitt að ströggla með hið gagnstæða. En það getur orðið of mikið af því góða og því mikilvægt að þú reynit að tempra mjólkurmyndunina með því að láta stúlkuna vera lengi á öðru brjóstinu og jafnvel sleppa hinu þegar mikið er í þér en ég tel ekki ráðlegt að nota snuðið fyrr en mjólkurmyndunin er komin í gott jafnvægi ca. um 6 vikna aldurinn. Þá er e.t.v. í lagi að nota snuðið sem huggara í stuttan tíma í senn. Hvaða tegund af snuði er notuð skiptir engu máli, þetta er allt sogið öðruvísi en brjóstið og breytir engu með tannheilsu hvort það er gómlaga eða hnöttótt. Varðandi svefninn hennar þá ætti hún að rjátlast yfir á fullorðinstíma svona í rólegheitunum um 3 mánaða aldurinn. Það er ágætt ráð að hafa eril á daginn með útvarpið í gangi og vera ekkert að spara heimilistækin en róa heimilið niður eftir kvöldmat, dempa ljósin og hafa það notalegt þannig að hún finni muninn á degi og nóttu. Eins er ágætt ráð að vera ekkert að spjalla eða skipta á henni (nema ef hún kúkar) á nóttinni og kveikja sem minnst af ljósum þannig að hún finni að það er nótt. Ef veður er hlýtt og ekki er vindur er alveg óhætt að fara með barn út í vagn um 2-3vikna aldur en ekki er lengur lögð á það áhersla að börn sofi úti í vagni, það jafnvel talið verra fyrir þau.
Vona að þetta gagnist ykkur eitthvað.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir