Spurning:
Kæri Doktor.
Ég er 19 ára stelpa að norðan. Það er eitthvað að mér og ég er skíthrædd. Ég fæ mikla hungurverki, svona rétt undir rifbeinunum og svo fellur blóðsykurinn mjög oft hjá mér og ég byrja að skjálfa, titra og svitna og verð utan við mig. Þegar það gerist þá verð ég að borða og borða, helst sætt brauð og drekka mjólk. Ég fæ líka oft brunatilfinningu í hálsinn og ógeðslega tilfinningu frá maga og upp undir háls, það er einsog ég sé svöng í öllum líkamanum og þá svitna ég mikið og líður mjög ílla. Ég fæ oft skyndilega og mikla magaverki og það kemur fyrir að þá æli ég og fæ niðurgang.
Ég tek það fram að hægðirnar hjá mér eru mjög furðulegar, pínu svartar og það eru einhverskonar korn eða eitthvað í þeim, það er einsog eitthvað meltist ekki. Ég veit að það hljómar illa en það er slím líka í hægðunum, sérstaklega þegar ég fæ mikið í magann. Ég var með gyllinæð, allavega finn ég ekki fyrir henni lengur þannig að ég býst við að hún sé farin. Ég fæ oft verki inni í endaþarminum, það er einsog verkurinn sem ég fæ í magann nema það að hann er í endaþarminum. Svo er einsog það sé þrýstingur og það koma svona þungir stingir, ég hljóða þegar þeir koma, það er ógeðslega vont. Það hefur komið fyrir að ég vaknaði um nótt að drepast úr verkjum í maganum og ég fór hágrátandi inn á klósett og fékk mikinn niðurgang og ég ældi í leiðinni. Þegar ég fæ svona verki þá vil ég frekar deyja heldur en að reyna að þola þetta, þetta er það sárt. Ég svitna bara og svitna og í orðsins fyllstu merkingu þá er þetta ekki í lagi lengur. Ég svitna oft yfir daginn þó mér sé ekki íllt, mig stingur í húðina af svitanum, þetta er stórfurðulegur sviti. Ég vona að þið svarið mér sem fyrst því að þetta er ömulegt. takk fyrir. Kveðja
Svar:
Sæl og blessuð.
Þú lýsir ýmsum einkennum frá meltingarvegi sem erfitt er að ráða úr nema með góðri skoðun og rannsóknum. Ég get einungis ráðlagt þér að leita til meltingarfærasérfræðings sem getur skoðað þig frekar og gert þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að ráða fram úr vandamálum þínum. Það er margt sem kemur til greina, t.d. magabólgur eða sár, vélindabakflæði, bólgusjúkdómur í ristli og endaþarmi, lágur blóðsykur, mataróþol, starfrænar meltingartruflanir ofl.
Á FSA Akureyri er Nick Cariglia meltingarlæknir starfandi og Ásgeir Böðvarsson á Húsavík. Í Læknasetrinu Mjódd eru margir meltingarlæknar starfandi ef þú átt ferð til Reykjavíkur
Ekki bíða of lengi með að leita þér aðstoðar!
Bestu kveðjur
Sigurbjörn Birgisson, læknir
Sérfræðingur í meltingarsjúkdómum