Mismunandi verkir á meðgöngu?

Spurning:
Ég er 19 ára kona og langar bara að forvitnast um eitt. Ég er ólétt, komin rúmar 32 vikur á leið en ég er ekki með neina verki. Mig langar að vita hvort þið gætuð sagt mér hvernig maður þekkir munin á verkjum sem maður þarf að hafa áhyggjur af og fyrirvaraverkjum/hríðum? Því það er alltaf talað um að maður eigi að hafa samband við lækni eða ljósmóður þegar maður fær verki, en hvernig veit maður hvort þetta eru hættulegir verkir eða fyrirvaraverkir/hríðir?
Með von um svör…

Svar:
Sæl, til hamingju með þungunina og takk fyrir fyrispurnina.

Verkir í leginu og kringum legið eru algengir á meðgöngu, Legið stækkar á meðgöngu og þá tognar á legböndunum sem halda leginu á sínum stað í grindinni og það þrýstir á ýmsa aðliggjandi vefi, því finna konur oft fyrir vægum verkjum en stundum geta þeir verið sárir.

Grindarverkir lýsa sér sem verkir í lífbeini, mjóbaki og mjöðmum. Grindarverkir koma vegna þess að los verður í liðnum sem heldur mjaðmabeinunum  saman, og er orsökin rakin til hormónaáhrifa á meðgöngu. Vægir grindarverkir eru algengt fyrirbæri á meðgöngu og  án þess að vera grindargliðnum

Samdrættir lýsa sér á þann veg að kúlan verður hörð án þess að konan finni fyrir verkjum. Misjafnt er hvenær og hvort konur finna fyrir samdráttum á meðgöngu. Flestar finna fyrir samdráttum síðustu vikur meðgöngunnar og er það eðlilegt, hafa ber þó í huga að þeir ættu ekki að vera fleiri en fjórir á klukkutíma.

Fyrivaraverkir eru samdrættir ásamt verkjum sem koma óreglulega og standa stutt yfir. þeir eru frekar óþægilegir en vondir og hverfa oft við hvíld. Talið er að fyrivaraverkir undirbúi leghálsinn fyrir fæðinguna og eru því gagnlegir, þeir koma oftar hjá konum sem fætt hafa áður.

Hríðar sem eru merki um byrjandi fæðingu eru samdrættir ásamt verkjum sem
koma reglulega, lagast ekki í hvíld, aukast smám saman, styttist á milli
þeirra og þeir standa lengur.

Túrverkir eru verkir frá leghálsinum og geta verið einkenni um byrjandi fyriburafæðingu.

Verkir geta verið meinlausir en þeir geta einnig verið merki um að ekki sé allt í lagi. mikilvægt er að láta ljósmóðurina í meðgönguverdinni vita ef verkir eru til staðar. Ef verkir eru sárir, túrverkir, blæðing, eða merki um byrjandi fæðingu þá er ráðlagt að hafa samband strax við lækni eða ljósmóður á fæðingardeild.

Vona að þetta svari spurningu þinni og þú sért einhverju nær.
Gangi þér vel.

Kveðja,
Halldóra Karlsdóttir
Hjúkrunarfræðingur og ljósmóðir