Misstórir augasteinar?

Spurning:
Doktor, hvað þýðir það ef augasteinarnir eru misstórir. Þetta kemur mjög oft fyrir mig og ég veit ekki hvort ég þarf að hafa einhverjar áhyggjur af þessu. Ég finn ekkert fyrir þessu, ég fór að taka eftir þessu fyrir nokkrum árum.

Með fyrirfram þökk

Svar:
Komdu sæll.

Augasteinunum svokölluðu má e.t.v. betur lýsa með hinu ágæta orði ,,sjáaldur“. Þarna er í raun oftast verið að lýsa opinu sem er á lithimnunni fremur en augasteininum sjálfum. Þar sem myrkur ríkir inni í auganu virðist þetta vera svartur blettur, en er í raun bara gat á lithimnunni. Vöðvar í lithimnu stjórna stærð gatsins og þekkjum við að sjáöldrin dragast saman í birtu en víkka út í rökkri, eða myrkri. Sjáöldrin eru síðan misstór eftir einstaklingum, sumir eru með stór sjáöldur, aðrir, líkt og kappinn Paul Newman, eru með lítil sjáöldur. Enn er svo til að sjáöldrin séu misstór í sama einstaklingnum.

Hjá u.þ.b. 10% fólks eru ljósopin misstór og getur það valdið nokkrum áhyggjum. Hins vegar er ástæðan oftast sárasaklaus.  Sumir eru fæddir með misstór ljósop og er þá oftast ekki vitað um orsakir þessa. Algengasta orsökin fyrir misstórum sjáöldrum er svokallað Adies fyrirbrigði, en það eru misstór sjáöldur sem koma oftast í kjölfar venjulegrar veirusýkingar. Enginn veit af hverju þetta gerist og sjáöldrin verða oftast misstór til frambúðar. Þetta er þó ekki áhyggjuefni og tekur viðkomandi sjálfur yfirleitt mest eftir þessu. Í örfáum tilfellum geta misstór sjáöldur verið merki um líkamlega sjúkdóma, oftast tengdum miðtaugakerfi og því ætti til öryggis að leita læknis ef sjáöldrin verða skyndilega misstór.

Bestu kveðjur,
Jóhannes Kári.