Misvísandi þungunarpróf?

Spurning:

Kæra Dagný

Ég hef skrifað þér áður og þakka þér fyrir góð svör. Nú leita ég til þín aftur vegna áframhaldandi vandamála.

Síðast þegar ég skrifaði þér, hafði ég fengið jákvæða þungunarprufu og svo neikvæða á eftir henni (í júní ef ég man rétt). Vandinn er svipaður að þessu sinni. Ég tók þungunarpróf daginn eftir að tíðir hefðu átt að hefjast og fékk jákvætt-tvær línur, línan var vel greinileg þó hún væri í ljósari kantinum svo ég tók annað próf morguninn eftir með morgunþvaginu og var það einnig jákvætt. Morguninn eftir, semsagt í morgun tók ég svo enn annað og það kom út neikvætt. Getur verið að um samskonar „fósturmissi“ sé að ræða ? Ef svo er, hvað getur verið að mér? Er þetta algengt? Ég er alveg miður mín og mér finnst engin von vera um að þetta takist nokkurn tíma hjá okkur. Hvað er til ráða ?

Ég vona innilega að þú getir svarað mér.

Svar:

Sæl og takk fyrir góðar kveðjur.

Sá möguleiki er fyrir hendi að þungunarprófið sem kom neikvætt út hafi verið gallað. Ef blæðingar hefjast hins vegar getur verið að frjóvgaða eggið nái ekki að festa sig almennilega í slímhúð legsins og nái því ekki að hefja þroska sem fóstur. Oft eru orsakir slíks óskýranlegar en þú getur prófað náttúrumeðul eins og rauðsmára- og hindberjalaufste sem eiga að gera legið móttækilegra fyrir egginu. Svo er best ef þú getur sleppt alveg kaffi og öðru því sem inniheldur koffín því það dregur úr frjósemi. Á heimasíðu Tilveru, samtaka gegn ófrjósemi, getur þú til viðbótar fundið ýmis ráð og stuðning við barneignartilrauninirnar. Slóðin er www.islandia.is/tilvera/

Ef þetta gengur áfram illa ættir þú að ræða við kvensjúkdómalækni sem getur þá gert rannsóknir til að meta hvers eðlis vandinn er, m.a. með þvi að mæla styrk hormóna í blóði.

Vona að þetta fari að takast.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir