Mjólka ekki – hvers vegna?

Spurning:
Hvað veldur því að sumar konur mjólka ekki og geta því ekki haft börn sín á brjósti? Ég á tvö börn sem ég gat ekki haft á brjósti einfaldlega vegna þess að ég mjólkaði ekki, þrátt fyrir að hafa reynt allt. Ég hef verið að leita mér upplýsinga um ástæður þessa en finn hvergi.
Með fyrirfram þökk.

Svar:

Allar konur hefja mjólkurmyndun eftir fæðingu barns. Það er þó misjafnt hversu mikið þær mjólka og þar spila inn í margir þættir. Til að mjólkurmyndun fari vel af stað þarf barnið að sjúga brjóstin fljótlega eftir fæðingu, oft á dag og ,,tæma“ vel úr þeim. Sé barnið kröftugt og duglegt að ,,tæma“ brjóstin eru flestar konur farnar að mjólka nóg (og oft ríflega það) á 3. – 5. degi. Algengasta orsök ónógrar mjólkurmyndunar er að barnið sýgur ekki nægilega vel til að ,,tæma“ brjóstin eða fær ekki tækifæri til að sjúga nógu oft og lengi. Þó eru alltaf konur inn á milli sem ná aldrei upp nægri mjólkurmyndun þrátt fyrir að barnið sé kröftugt og duglegt og þær leggi á brjóst á tveggja tíma fresti allan sólarhringinn. Oftast er um að kenna þreytu, blóðmissi, fylgju- eða belgjarestum í legi, reykingum móðurinnar eða erfiðum aðstæðum sem valda móðurinni streitu. Örsjaldan er um að kenna ónógum starfhæfum kirtilvef í brjóstunum eða kirtilvef sem ekki hefur náð að þroskast almennilega. Ef brjóstagjöfin gengur ekki þrátt fyrir að allt sé reynt getur þessi möguleiki verið skýringin og þá er lítið annað að gera en sætta sig við að mjólka bara í dropatali og gefa ábót. Þær konur sem ekki sætta sig við að barnið taki pelann fram yfir brjóstið, vegna þess að það mjólki lítið, eru í æ ríkari mæli farnar að nota hjálparbrjóst þannig að barnið fái alla sína næringu við brjóstið. Upplýsingar um hjálparbrjóstið er að finna hjá versluninni Móðurást.

Vona að þetta veiti þér einhver svör við spurningunni.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir