Mjólkursykur- og glútenóþol

Spurning:

Sæll.

Nú hrópa ég á hjálp, þið sem eruð með bæði mjólkuróþol og glútenóþol og sérfræðingar!!!

Ég hef loksins verið greind með báða þessa sjúkdóma eftir að hafa barist við orðróm um anorexíu og búlimíu sem hefur aldrei háð mér.

En nú þegar ég get svarað fyrir mig, þá spyr ég ykkur hin, hvernig þið getið fyllt daginn með réttu matarræði. Ég er búin að vera leita fyrir mér, og svona sérstakar vörur eru nokkuð dýrar og þar sem ég er námsmaður á ég í svolitlum vandræðum með að einblína á þessar vörur. Því bið ég um ráðleggingu svo að ég geti haldið áfram að lifa „eðlilega“.

Í von um að einhver geti ráðlagt mér!

Með kveðju,

Svar:

Komdu sæl.

Já, það að þjást af óþoli eða ofnæmi er ekkert grín. Af þessum tveimur óþolum sem þú hefur verið greind með er glútenóþolið erfiðara viðureignar enda glúten að finna í svo mörgum kornafurðum og nauðsynlegt að útiloka glúten alfarið á meðan að flestir sem þjást af mjólkursykuróþoli geta leyft sér lítilsháttar neyslu af mjólkursykri án þess að finna til óþæginda.

Læt hér fylgja upplýsingar um þessar tvær tegundir óþols með von um að þær megi hjálpa þér í þeirri vinnu sem þú þarft að taka þér á hendur til að koma mataræðinu í rétt horf. Einnig er rétt að benda á að heillavænlegt gæti verið að leita sér ráðgjafar hjá næringarfræðingi/næringarráðgjafa.

Laktósuóþol

Laktósuóþol (mjólkursykuróþol) myndast vegna of lítillar framleiðslu á laktósahvatanum (laktasa) í líkamanum. Fyrir vikið nær líkaminn ekki að melta laktósann sem staldrar ómeltur við í meltingarvegi þar sem hann dregur til sín vökva og afleiðingin verður uppþemba, magaverkur og niðurgangur. Bakteríur sem eru í meltingarvegi taka til við að nærast á þessum ómelta laktósa og þær fjölga sér ört og framleiða ertandi sýru og gas og óþægindin magnast enn frekar.

Þess ber að geta að þó að slæmur niðurgangur sé algengasti meltingarkvilli sem tengist laktósaóþoli, meðal annars hjá börnum, er til í dæminu að laktósaóþol leiði til slæms harðlífis. Framleiðsla á laktósahvötum er mest strax eftir fæðingu sem kemur sér að sjálfsögðu vel fyrir kornabarnið enda er mjólk þess fyrsta og eina fæða í nokkurn tíma. Hjá flestum kynþáttum dregur verulega úr framleiðslu laktósahvata á barns- og unglingsárum og í lok unglingsáranna nemur hún ekki nema um 5-10% af því sem átti sér stað við fæðingu. Um 30% alls mannkyns framleiðir nægilega mikið af laktósahvötum til að geta melt laktósa án teljandi erfiðleika alla ævi.

Laktósaóþol er ekki mjög algengt á Íslandi. Ástæðan er sú að þessi tegund óþols er mjög tengd kynþáttum. Þannig þjást einvörðungu um 1-5% Norður-Evrópubúa af laktósaóþoli en meira en 80% Bandaríkjamanna sem eru af asísku bergi brotnir.

Einstaklingar sem þjást af laktósaóþoli þurfa stundum að útiloka mjólk og ýmsar mjólkurafurðir alveg úr fæðunni (sjá töflu 1). En í flestum tilvikum virðist vera hægt að ná upp ákveðnu þoli með því að auka neyslu á mjólk hægt og rólega. Þannig er hægt að ná upp þoli sem jafngildir um einu glasi (2,5 dl) af mjólk á dag. Best er að fá sér smálögg af mjólk nokkrum sinnum á dag og þá alltaf með öðrum mat. Ástæðan fyrir því að hægt er að ná upp þoli gagnvart mjólk og þar með mjólkurafurðum er ekki tengd því að líkaminn auki framleiðslu á laktósahvötum heldur vegna breytinga sem eiga sér stað á starfsemi baktería sem er að finna í meltingarkerfinu.

Í mörgum tilvikum þola einstaklingar með laktósaóþol gerjunarafurðir eins og jógúrt og AB-/ABT- mjólk. Ástæðan er sú að þær bakteríur sem er að finna í þessum mjólkurafurðum nýta (melta) sér laktósann til viðurværis þannig að magn laktósans verður tiltölulega lágt.

Yfirleitt er neysla á mjólkurafurðum eins og ostum ekki vandamál vegna þess að laktósinn er mestallur fjarlægður við framleiðslu.

Fólk með laktósaóþol getur neytt laktósahvata í fæðubótarformi, annars vegar í töfluformi með mat eða í vökva með laktósahvötum. Þessir laktósahvatar brjóta þá laktósann niður í glúkósa og galaktósa. Einstaklingar með laktósuóþol eiga ekki í neinum erfiðleikum með að melta þær tegundir. Flestir sem greinast með laktósaóþol geta drukkið mjólk án þess að finna til óþæginda ef magn laktósa í afurðinni hefur minnkað um 50% eða meira.

Tafla 1

Ýmis heiti á mjólk, hráefnum/matvælum sem koma
fyrir í innihaldslýsingum matvæla og matvæli sem
þessi efni finnast í.

Mjólk: