Spurning:
Hæ, ég er gengin 26 vikur með annað barn og ég hef verið með svolítið mikla samdrætti (ég man eftir samdráttum á fyrri meðgöngu en ekki svona oft og mikið nema í lokin). Ég fór upp á spítala og þá var lífmóðurhálsinn hjá mér frekar mjúkur og það fannst eggjahvíta í þvaginu hjá mér. Ég er búin að vera með þessa samdrætti í ca. 3 vikur (svona mikið). Spurning mín er sú: eru miklar eða einhverjar líkur á að ég muni eiga fyrir tímann vegna mjúks legháls (lífmóðurháls) og af hverju gæti verið að hann hafi linast svona snemma? Ég á tíma á fimmtudag hjá lækni í frekari skoðun en ég væri mjög þakklát ef ég fengi einhver svör við spurningum mínum fyrir þann tíma (ég er frekar stressuð út af þessu).
Kær kveðja og með fyrirfram þökk
Ein með áhyggjur
Svar:
Á þessum tíma meðgöngunnar er ekki eðlilegt að samdrættir séu svo miklir að þeir breyti og opni leghálsinn, þótt annars sé eðlilegt að hafa samdrætti af og til alla meðgönguna. Algengasta skýring þess að samdrættir verða svona miklir eru sýkingar í leggöngum eða þvagfærum. Einnig getur langvarandi þurrkur eða ónóg vökvainntekt orsakað samdrætti. Sé kona viðkvæm fyrir ertingu legsins getur einnig kynlíf orsakað samdrætti sem og að lyfta þungum hlutum og bera.
Það er gott að læknirinn ætlar að skoða þetta betur og vonandi finnst skýring og lausn á þessu. Stundum þurfa konur að fá lyf til að stöðva samdrætti þar til barnið hefur náð nægum þroska til að fæðast.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir