Móða fyrir öðru auganu?

Spurning:
Góðan daginn.
Ég ætlaði að fá smá upplýsingar. Ég er með hornhimnusjúkdóm á öðru auga, hann lýsir sér þannig að ég sé allt i móðu á öðru auga. Ég hef farið til augnlæknis út af þessu og mér var ráðlagt að bíða í smá stund því heildarsjónin er alveg ágæt. Ég veit samt voða lítið um þennan sjúkdóm, t.d. hvort það sé líklegt að ég fái þetta á hitt augað eða ekki? Hvort þetta gæti versnað með því að horfa mikið á sjónvarp eða hvað er best að gera til að laga þetta? Ég  erí rauninni að nota bara annað augað, þar af leiðandi er ég hræddur um að það komi eitthvað fyrir það. Þess vegna vil ég passa allt sem gæti hugsanlega skaðað það. Svona almennt – fer illa með sjónina að glápa mikið á sjónvarp og vera mikið í tölvum?  
Með fyrirfram þökkum

Svar:

Sæll.
 
Hornhimnusjúkdómar eru af ýmsum toga. Í raun eru hornhimnusjúkdómar og hornhimnuskurðlækningar orðnar það víðfeðmt svið að það er orðið að undirsérgrein innan augnlækninganna og hefur undirritaður m.a. slíkt viðbótarnám að baki. Þeir eru býsna margir hornhimnusjúkdómar sem þessi lýsing þín gæti átt við. Ef þú sérð hins vegar allt í móðu á öðru auganu vegna hornhimnusjúkdóms þyrfti að athuga hvort ekki væri grundvöllur fyrir því að laga það. Unnt er að meðhöndla hornhimnusjúkdóma á ýmsa vegu, t.d. með lyfjum, snertilinsum, laseraðgerðum og síðan með hornhimnuskiptum, ef um alvarlegan sjúkdóm er að ræða og engin von er til að ná sjón á annan hátt. Hornhimnuskipti eru líffæraskipti, þ.e. hornhimna úr látnum einstaklingi er græddur í stað sjúkrar hornhimnunnar (má líkja við að skipta um rúðu í glugga). Þessi aðgerð hefur verið framkvæmd áratugum saman með góðum árangri.
 
Ég tel það afar mikilvægt að auka vitneskju fólks hér á landi um þá sjúkdóma sem þeir kunna að vera með. Það væri einungis til samræmis við almennt hátt þekkingarstig Íslendinga. Þar kemur www.doktor.is inn í og er þessi vefsíða mikil bót þar á. Það má þó gera enn betur. Sérstaklega þurfa læknar, augnlæknar sem aðrir, að fræða sjúklinginn um sjúkdóminn, skrá niður nafn sjúkdómsins og afhenda sjúklingi, benda honum á lesefni og vefsíður, þar sem sjúklingurinn getur fræðst um sjúkdóminn. Þetta þykir víða orðið sjálfsagt og ætti að vera enn minna mál nú á dögum þegar svo auðvelt er að ná í þekkingu sem raun ber vitni.  Spurningu þinni um hvort það sé óhollt að horfa á tölvur eða sjónvarp er auðsvarað; svo er alls ekki.
 
Ég mæli með því að þú fáir nána útskýringu á sjúkdómi þínum – ég hvet þig t.d. til að útbúa spurningalista sem þú átt rétt á að fá nákvæmlega svarað – lið fyrir lið. Aðeins á þann hátt getur þú verið viss um að þú sért að fá bestu skoðun, greiningu og meðferð við sjúkdómi þínum. Ein mikilvægasta spurningin sem þú þarft að bera fram er auðvitað: Getur þetta komið í hitt augað?
 
Að lokum vil ég benda þér á frábæra vefsíðu um hornhimnusjúkdóma (corneal diseases) – því miður er hún á ensku og þarf tilfinnanlega að bæta úr fræðsluefni á vefnum um augnsjúkdóma, líkt og reyndar sjúkdóma annars staðar í mannslíkamanum. 
 
Hér er slóðin: http://www.nei.nih.gov/health/cornealdisease/index.htm
 
Gangi þér síðan allt í haginn,
 
 
Jóhannes Kári.