Natríumfall hjá eldra fólki?

Spurning:
Hvað á að gera þegar natríum fellur mikið niður hjá eldra fólki?

Svar:
Natrium er mikilvægt fyrir vökvastjórnun líkamans og þetta kerfi truflast oft hjá eldra fólki. Ef natrium fellur í blóði getur það valdið ógleði, höfuðverk, sljóleika, rugli og meðvitundarskerðingu. Algengast er þó að þetta sé einkennalaust, einkum ef lækkunin er ekki mikil eða gerist á löngum tíma.
Fyrir þessu geta verið margar ástæður og meðferðin mismunandi samkvæmt því. Ein algengasta ástæða lágs natrium eru ýmis blóðþrýstings- og vatnslosandi lyf og getur þurft að hætta notkun þeirra ef þetta vandamál kemur upp. Einnig geta margir sjúkdómar m.a hjartasjúkdómar, nýrnasjúkdómar, lifrarsjúkdómar eða lungnasjúkdómar verið orsakakvaldar. Meðferðin er fólgin í að leiðrétta undirliggjandi sjúkdómsástand og leiðrétta vatnsbúskap líkamans ýmist með gjöf saltvatns eða takmörkun vökvainntöku.

Einar Eyjólfsson, læknir