Neglur á tám og fingrum barns sem losna

Tveggja ára barn sem ítrekað missir neglur, hverjir geta orsakaþætti verið?

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Það að nögl falli af er oft tengt áverka svo sem höggi eða klemmdum fingri, en getur einnig verið nátengt ónæmiskerfinu. Þessu er gjarnan skipt niður í mismunandi flokka eftir því hvernig einkenni lýsa sér og með hvaða hætti nögl fellur af.

Ein algengasta orsök þess að barn á þessum aldri missir neglur er sýking af völdum hand-, fóta- og munnsjúkdóms, einnig oft kallað gin og klaufaveiki, sem herjar árlega á leikskólum landsins. Hægt er að sýkjast oftar en einu sinni af veirunni sem veldur og geta einkenni svo sem að missa neglur komið fram jafnvel 4-8 vikum eftir smit.

Einnig geta áhrif í ónæmiskerfinu eða sýking af öðrum toga (s.s. Kawasaki sjúkdómur eða önnur sýking sem orsakar háan hita) valdið þessum einkennum.

Erfitt er að meta slík tilfelli án skoðunnar og frekari sögu og því alltaf ráðlagt að leita til heimilislæknis ef áhyggjur vakna eða við endurtekin og/eða langvarandi einkenni.

Gangi þér vel

Auðna Margrét Haraldsdóttir, hjúkrunarfræðingur