Neysla barna á sykurlausum gosdrykkjum?

Spurning:

Dóttir mín drekkur mikið af sykurlausum gosdrykkjum, getur þetta ekki haft slæm áhrif á heilsu hennar?

Svar:

Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.

Eins og við höfum séð í fjölmiðlum nýlega þá eykst gosdrykkjaneysla þjóðarinnar hratt. Erfitt er að segja hvar mörkin liggja hvenær við erum farin að drekka hættulega mikið, en mikilvægt er að hafa í huga að ef neytt er gosdrykkja sem innihalda sykur er hætta á tannskemmdum miklar og hitaeiningafjöldi í þessum drykkjum mikill meðan næringargildi er lítið og því aukin hætta á offitu.

Sykurlausir drykkir innihalda svokölluð gervisætuefni og þeir eru margir sem hafa áhyggjur af hvaða áhrif þessi efni hafa á heila- og miðtaugakerfi, en í dag eru þessi áhrif ekki að fullu ljós. Einnig innihalda þessir drykkir ýmis aukaefni og eru áhrif þeirra á líkamann ekki að fullu rannsökuð.

Nýleg rannsókn á bandarískum unglingsstúlkum sýndi að þær sem drukku mikið af kolsýrðum drykkjum voru þrefalt líklegri en jafnöldrur þeirra, sem ekki neyttu kolsýrðra drykkja, til að beinbrotna.

Af framansögðu má því draga þá ályktun að rétt sé að takmarka neyslu á sykurlausum gosdrykkjum, sérstaklega er það mikilvægt þegar litið er til beinþynningaráhrifa fyrir ungar stúlkur og konur sem nálgast tíðahvörf. Hvert það magn sem óhætt er að drekka af þessum drykkjum á dag veit ég ekki, en eitt til tvö glös ættu ekki að skaða. Vona að þetta svari spurningu þinni.

Gangi þér vel.

Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.