Nikótín og þyngdaraukning

Spurning:

Sæl.

Er nikótín í sígarettum krabbameinsvaldandi eða eru það „bara“ öll hin 2000 efnin? Er nikótín bara efnið sem er ávanabindandi?

Mig langar til þess að vita þetta því ég nota nikótíntyggjó og á erfitt með að hætta því. Er allt of langur tími að nota svoleiðis lagað í 1 ár? Er ég að gera mér einhvern skaða með svona langvarandi notkun?

Svar:

Nikótín og þyngdaraukning.

Nikótín hefur margvísleg áhrif. Það dregur meðal annars úr hungurtilfinningu með því að framleiðsla á stresshormónum t.d. adrenalíni eykst í líkamanum. Stress eykur efnaskipti þannig að sá sem notar nikótín brennir um 200 fleiri kaloríum á dag. Það er því rökrétt að ætla að maður þyngist við það að hætta að reykja. Rannsóknir hafa leitt í ljós að margir sem hætta að reykja þyngjast um 3 – 5 kg fyrsta reyklausa árið. Þetta er algengasta orsökin fyrir „falli“ á reykbindindi. Ef þú ert meðvitaður um þessa staðreynd er auðveldara að takast á við hana.

Hvað getur maður þá gert?

Hreyfing, þá á ég við röska göngu í 45 – 60 mínútur fjóra til fimm daga vikunnar hefur sömu áhrif og nikótín. Hreyfing eykur efnaskipti í líkamanum, fita brotnar niður og sykur flyst út í blóðið. Við það minnkar hungurtilfinning og þú finnur fyrir líkamlegri vellíðan. Svefninn batnar og hætta á vöðvabólgu minnkar.

Ég mæli með því að nota 1 – 4 tyggigúmmí á dag. Xylitol tyggjó er góður kostur sem tannlæknar mæla með. Það leiðréttir sýrustig í munninum, er sykurlaust og gefur ferskan andardrátt.

Neysla á grænmeti og ávöxum verður að koma í stað sætinda eða fituríks mats.
Skerðu niður og hafðu tilbúið í ísskápnum, blómkál, gulrófur og gulrætur. Tómatar og harðfiskur eru líka tilvalin til neyslu ef hungurtilfinning gerir vart við sig. Það má ekki gleyma því að reykingar eru mikill vani, ef þú reykir pakka á dag ferðu með hendina 200 sinnum á dag upp að vörunum.

Ekki fara svangur að kaupa inn til heimilisins. Það er segin saga að alls konar kex og sælgæti í magneiningum ratar frekar ofan í körfuna svo ekki sé minnst á kartöfluflögur og gos. Kauptu frekar lítið súkkulaðistykki einu sinni í viku, best er að borða það strax eftir mat því þá er brennslan í fullum gangi. Þegar upp er staðið sparar maður ekki á magnkaupunum heldur eykst neyslan í réttu hlutfalli við meira magn.

Vatn og aftur vatn, við erum jú að megninu til vatn. Ég ráðlegg þér að drekka mikið vatn (6 – 8 glös á dag). Það dregur úr hungurtilfinningu að fá sér vatnsglas fyrir mat og milli mála. Gos og ávaxtasafi eru súrir drykkir pH: 3 á meðan munnvatn er með sýrustig um 7. Glerungur tanna þolir illa þetta sýrustig. Sýrustig undanrennu og mjólkur er mun nær sýrustigi munnvatnsins. Við megum samt ekki drekka undanrennu við þorsta það er að segja mörg glös í einu, það er mikill mjólkursykur í mjólk og undanrennu þannig að hitaeiningarnar telja hratt. Tvö glös á dag er það sem Manneldisráð mælir með. Vatn er best við þorsta.

Notkun nikótínlyfja kemur sterklega til greina á meðan tekist er á við fíknina í tóbak. Sérstaklega á það við ef þyngdin verður vandamál. Því eins og ég sagði í upphafi eykur nikótín brennslu í líkamanum.

Mörgum hefur reynst vel að tyggja lakkrísrót þegar löngun í mat eða tóbak gerir vart við sig. Lakkrísrót fæst í heilsubúðum.

Við það að breyta um lífsstíl á þennan hátt aukast lífsgæðin. Fráhvarfseinkenni gera líka síður vart við sig. Við hjá Ráðgjöf í reykbindindi s: 8006030 viljum styðja þig í baráttunni við reykingarnar og til léttara lífs. Við erum við símann alla virka daga frá kl 17 – 19.

Kær kveðja og gangi þér vel,

Sigríður Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga og ráðgjafi í reykbindindi.