Nikótínofnæmi?

Spurning:
Ég byrjaði að fikta við reykingar 14 ára gamall. Um ári eftir það fór ég að fá einskonar króníska bólgur í nefkokið og mikil sár mynduðust um allan munninn, skrítna verki sem virtust vera í lungunum og varð oftar veikur. Mikil veikindi fylgdu oftast þegar bólgurnar í nefkokinu blossuðu upp. Löngu seinna áttaði ég mig á að ef ég sleppti því að reykja hurfu einkennin. Ég er orðin 20 ára í dag og hef verið að berjast við að hætta reykingum, Nikótíntyggjó valda sárum í munninum hjá mér og ég hef ekki þorað að prófa nefúðann. Get ég verið með nikótínofnæmi, eða er þetta kannski vísir á eithvað enn verra?

Svar:

Sæll !

Það er langlíklegast að um sé að ræða ofnæmissvörun hjá þér, annaðhvort fyrir nikótíni eða einhverjum af þeim 2000 efnum sem eru í tóbakinu sjálfu, svo eru um 4000 efnasambönd í tóbaksreyk og því mjög margir hugsamnlegir ofnæmisvaldar.

Skynsamlegustu lausnina á vanda þínum ertu búinn að finna sjálfur það er að hætta að reykja. Líklega er best fyrir þig að sleppa nikótínlyfjum. Góða leiðsögn og úrræði til aðstoðar þeim sem eru að hætta að reykja er hægt að fá á námskeiðum og einnig hjá

,,Ráðgjöf í reykbindindi” sími 800-6030 það er símaþjónusta fyrir þá sem vilja hætta að reykja.

En ég tel rétt að benda þér á að til er nikótínlaust lyf gegn reykingum sem heitir zyban. Það er lyfseðilskylt svo þú þarft að fara til læknis til að fá skrifað upp á lyfið.

Líkur á alvarlegri sjúkdómum hjá þér tel ég sáralitlar, en besta leið þín til betri heilsu er örugglega að hætta að reykja.

 

Gangi þér vel,

Dagbjört Bjarnadóttir, hjúkrunarfræðingur og ráðgjafi í reykbindini.