Spurningin:
32 ára – kona
Góðan daginn.
Ég er sett 2.júní og er svona aðeins farin að kvíða fyrir fæðingunni. Það sem ég kvíði helst fyrir er að rifna. Ég hef verið að pæla í að gera tilraun sem ég hef ekki rætt við ljósmóðurina um en að biðja ljósmóðirina eða maka minn um að bera á mig sleipiefni að neðan. Ég hef tilhneigingu til að halda að það sem auðveldar „einhverju“ stóru að fara inn geti hjálpað barninu að „renna“ út og með því að bera þessa nuddolíu/sleipefni á spangarsvæðið og leghálsinn.
Mig langar að fá álit frá ljósmóður og hvort þetta sé eitthvað sem aldrei hefur verið prófað eða hvort það hafi hjálpað einhverjum áður?
Með fyrirfram þökk
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina,
Það er mjög eðlilegt að vera hrædd við að rifna. Talaðu endilega um það við ljósmóðurina sem sinnir þér í fæðingunni, þá getur hún hjálpað þér þannig að líkurnar á að þú rifnir illa séu sem minnstar. Það er mjög algengt að konur rifni eitthvað með fyrsta barn en með því að reyna að stuðla að því að kollurinn á barninu fæðist hægt þá er hægt að minnka líkurnar á því að það sé mikið.
Ég hef ekki heyrt um að sleipiefni hjálpi til við að mýkja spöngina en það eru til sérstök nuddolía sem kallast spangarolía sem rannsóknir hafa sýnt að geta hjálpað – bera á og nudda spangarsvæðið síðustu vikurnar.
Á síðunni ljósmóðir.is eru góðar leiðbeingar um þetta og þar segir m.a.:
„Nuddið miðar að því að teygja á spangarsvæðinu en það er svæðið á milli leggangaopsins og endaþarmsins.
Ekki ætti að nudda spangarsvæðið ef sýking er í leggöngum eða sár s.s. herpes útbrot. Gætið þess að nudda mjúklega, hafið hendur hreinar, neglur stutt klipptar og vel snyrtar svo þær særi ekki og gætið þess að nudda ekki í kringum þvagrásina.
Nuddið tekur um 10 mínútur og mælt er með nuddi daglega frá 34. viku meðgöngu.“
Hér koma svo nuddleiðbeiningar sem ég þýddi lauslega af vefsíðu University of Michigan. Þar eru meiri upplýsingar svo og góð mynd sem kannski segir meira en þúsund orð.
„Sittu eða liggðu í þægilegri stellingu. Heitt bað eða heitur klútur á spangarsvæðið í 10 mínútur fyrir nuddið getur auðveldað slökun.
Við nuddið þarf að nota olíu og/eða sleipiefni. Settu olíu, t.d. olívuolíu eða spangarolíu eða K-Y gel (fæst í apótekum) á þumalfingurna og á spangarsvæðið.
Settu þumalfingurna vel inn í leggöngin og þrýstu þeim niður og færðu til skiptis til hliðanna og til baka að miðju þar til þú finnur fyrir smá sviða eða óþægindum. Haltu áfram að þrýsta í u.þ.b. 2 mínútur eða þar til þú finnur fyrir dofa á svæðinu. Andaðu hægt og rólega og reyndu að slaka á grindarbotnsvöðvunum. Haltu áfram að þrýsta niður þumalfingrunum og nuddaðu rólega og mjúklega upp til hliðanna og til baka að miðju aftur með U-laga hreyfingu í 3 mínútur.
Slakaðu á og endurtaktu einu sinni.
Þegar þú ert kominn upp á lagið með nuddið getur verið gott að gera grindarbotnsæfingar um leið. Það þjálfar grindarbotnsvöðvana og hjálpar þér að þekkja þá“
Einnig getur verið gott að bera olíu á spangarsvæðið í fæðingunni sjálfri. Allir fæðingastaðir eru með olíur til að nota en líka gott að hafa með sína eigin.
Kveðja,
Kristín Svala Jónsdóttir,
Hjfr. og ljósmóðir