Óþægindi í augum?

Spurning:
Mig langar að fá upplýsingar um óþægindi í augum. Ég hef haft rauðleit augnlok um skeið og stundum fylgja þau óþægindi s.s tár, og slímmyndun innan á augnlokum, einkum því neðra. Oft er um að ræða þykka slímmyndun, líka greftri, og get ég stundum dregið langa ,,spotta" úr augnlokinnu. Eignig safnast slím eða gröftur í augnkróka. Stundum finnst mér að sandkorn sé í augunum. Með þökk.

Svar:
Komdu sæll.Þetta hljómar nú líkt og það sem við köllum hvarmabólgu. Hvarmabólga (blepharitis) er kvilli sem er býsna algengur.  Megineinkenni eru stírumyndun líkt og þú lýsir, sviði, og augnhvarmarnir verða bólgnir og þrútnir. Aðskotahlutstilfinning getur einnig komið fram, eins og eitthvað sé í augunum, s.s. sandkorn. Hvarmabólgan myndast sennilega vegna þess að það myndast ofnæmi fyrir úrgangsefnum baktería sem eru á hvörmum okkar allra. Þetta er hægt að meðhöndla með sýklalyfjum, en kemur jafnharðan aftur eftir að notkun þeirra er hætt, vegna þess að bakteríurnar eru allt í kringum okkur. Besta ráðið við þessu er eftirfarandi:1. Taka skal þvottapoka, setja hann undir heitt vatn, og leggja á augun líkt og heitan bakstur í 1 – 2 mínútur.2. Síðan tekur þú þvottapokann og skrúbbar hvarmana (líkt og verið sé að hreinsa augnháralit) létt, passar bara að fara ekki í augun sjálf.Þetta skaltu gera á hverju kvöldi og raunar er best að setja þetta inn í rútínuna, svona eins og að bursta tennur. Yfirleitt er nóg að nota heitt kranavatn (þarf að vera vel heitt), en sumir væta pokann úr þynntu barnasjampói (1 sjampó á móti 10 af vatni), sérstaklega ef hvarmabólgan er svæsin.Omega 3 fitusýrur hafa nýlega sýnt að þær beri árangur í að meðhöndla svæsna hvarmabólgu. Hörfræolía er t.d. rík af Omega-3 fitusýrum, og má fá hana t.d. í Heilsuhúsinu.  Einnig má kaupa Omega-3 fitusýruhylki í næsta apóteki.Varastu að ná í "slímstrengi" með fingrunum.  Með því geturðu valdið ertingu í augunum með fingrum.  Þetta hefur í gamni verið kallað "mucus fishing syndrome", sem má kalla: "slímsækisótt" !   Slímstrengirnir fara best með þvottapokanum.Gangi þér vel!Jóhannes Kári.